Fréttir
  • Seinni áfangi framkvæmda

Framkvæmdir hafnar aftur í Mosfellsbæ

Hringvegur (1) um Mosfellsbæ frá Hafravatnsvegi að Þingvallavegi.

14.4.2011

Framkvæmdir við seinni hluta tvöföldunar Hringvegar (Vesturlandsvegar) um Mosfellsbæ milli Hafravatnsvegar og Þingvallavegar hófust í lok mars. Nú er unnið við kaflann frá Álafossvegi að Þingvallavegi en framkvæmdum við fyrri hluta verksins, þ.e. kaflann frá Hafravatnsvegi yfir hringtorg við Álafossveg lauk haustið 2010. Í seinni áfanga er einnig lokafrágangur hljóðmana á öllu svæðinu ásamt öðrum frágangi utan vega. Akbrautirnar verða aðskildar með vegriði á öllum vegkaflanum sem verkið nær til.

Auk tvöföldunar Hringvegarins er fyrirhugað í samvinnu við Mosfellsbæ að tenging Áslands við hringveginn verði aflögð, biðstöð strætisvagna þeim megin færð sunnar auk þess sem hljóðvist verður bætt með lengingu og hækkun mana meðfram Hringveginum. Gönguleiðir verða lagfærðar sett ný göngubrú yfir Varmá og núverandi undirgöng lengd eftir því sem við á. Með þessari framkvæmd mun umferðaröryggi aukast til muna á vegkaflanum og umferð verður jafnari og greiðari.

Endanleg verklok eru áætluð í lok september 2011. Á framkvæmdatímanum verður reynt sem kostur er að takmarka truflanir á umferð. Verkið er í sameiginlegri forsjá Vegagerðarinnar og Mosfellsbæjar og verktaki er ÍAV hf.

Yfirlitsmynd framkvæmda (pdf)

Yfirlit yfir merkingar á vinnusvæðinu (pdf)