Fréttir
  • Fundur um almenningssamgöngur
  • Fundur um almenningssamgöngur
  • Fundur um almenningssamgöngur
  • Fundur um almenningssamgöngur
  • Fundur um almenningssamgöngur
  • Fundur um almenningssamgöngur

Tíu milljarðar á 10 árum

til almenningssamgangna frá ríkinu

13.4.2011

Innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson kynnti á morgunverðarfundi um almenningssamgöngur að samgönguráð legði til að ríkið setti tíu milljarða króna á tíu árum í tilraunverkefni á mót framlagi sveitarfélaga. Þannig rynni einn milljarður króna frá ríkinu árlega til verkefnisins sem yrði síðan endurmetið á tveggja ára fresti.

Um er að ræða almenningssamgöngur í þéttbýli. Ríkið hefur lítið sem ekkert komið að þeim þætti en hinsvegar hefur verið veittur styrkur til almenningssamgangna á landsbyggðinni, til ferja, vegna sérleyfa og til flugs eða sem nemur um 10 prósentum af fé til vegamála. Tillagan gengur út á að stórframkvæmdum í annarri vegagerð á höfuðborgarsvæðinu yrði frestað.

Fundurinn var haldinn 13. apríl og var mjög vel sóttur af ríflega 100 manns.

Ögmundur sagði að tilraunaverkefnið, ef af yrði, sneri að samgöngum á höfuðborgarsvæðinu og alls suðvesturhorns landsins. Hann hefði trú á því að þetta myndi gagna en tilgangurinn væri að gera almenningssamgöngur greiðari, hagkvæmari og sjálfbærari.

Starfshópur innan samgönguráðs hefur unnið að þessum tillögum sem eru um grunnnet almenningssamgangna og hjólreiða, þannig að þar sé að finna svipað grunnnet og varðandi vegi, hafnir og flugvelli. Fram kom í máli Þorsteins Rúnars Hermannssonar samgönguverkfræðings að grunnetið á suðvesturhorni landsins ætti að tengja saman sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og borgarhverfi með 10 þúsund íbúa eða meira. Netið yrði samtengt öðrum samgöngumátum, flugi og höfnum og tengdist einnig almenningssamgöngum við Árborg, Akranes og Reykjanesbæ.

Hann nefndi einnig að til að efla almenningssamgöngur þarf hvort tveggja fjármuni og úthald, skammtímahugsun skilaði sjaldnast miklu. Í því sambandi hefði verið rætt að hluti kolefnisgjalds rynni til almenningssamgangna og að sama skapi yrði endurgreiðslu olíugjalds hætt.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri fór á fundinum yfir það hvað snýr að Vegagerðinni og er styrkt í dag. Vegagerðin hefur umsjón með ríkisstyrktu almenningssamgöngunum þ.e.a.s. sérleyfum á landi, styrktum ferjurekstri og styrktu áætlanaflugi. Fram kom í máli Hreins að stór hluti þeirra styrktu ferða sem eru í boði væru lítið nýttar af almenningi. Í ljós hefði komið við greiningu á 40 sérleiðum á landi að það hefðu verið færri en þrír farþegar í hverri ferð á 30 leiðum og færri en einn farþegi í ferð á tíu leiðum. Nýtingin á styrktum flug- og ferjuleiðum er betri en eigi að síður langt undir flutningsgetu.

Þá sagði Hreinn að ríkissjóður hefði styrkt almenningssamgöngur um frá 1200 til 1500 milljóna króna á ári síðastliðin þrjú ár auk um 140 milljóna króna styrk með niðurfellingu olíugjalds vegna almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu.

Í pallborðsumræðum og fyrirspurnum fundarmanna kom almennt fram ánægja með að verja ætti þetta miklu fé á tíu árum í tilraunverkefnið til að efla almenningssamgöngur.