Fréttir
  • Umferðareftirlit

Undanþáguákvæði um ökurita falla úr gildi 15. apríl

vakin er athygli á breytingum sem verða í næsta mánuði

14.3.2011

Þann 15. apríl næstkomandi falla úr gildi undanþáguákvæði í reglugerð um aksturs- og hvíldartíma ökumanna, notkun ökurita og eftirlit frá 6. júlí 2010. Undanþága fyrir 9-17 manna hópbíla frá því að nota ökurita fellur úr gildi. Einnig falla þá úr gildi undanþágur í greinum 7. og 9. í reglugerðinni um aksturstíma og hlé frá akstri.

Vakin er athygli á þessu.

Með setningu reglugerðarinnar tóku m.a. gildi breytingar sem snéru að hópbílum 9-17 manna sem alfarið höfðu verið undanþegnar ákvæðum um notkun ökurita. Breyting þessi fól í sér að frá þeim tíma sem reglugerðin tók gildi áttu ökumenn allra þeirra bifreiðar 9-17 manna sem búnar voru ökurita að nota hann og fara að reglum um aksturs- og hvíldartíma ökumanna. Þar sem nokkuð af bifreiðum af þessari stærð voru ekki búnar ökurita var í reglugerðina sett ákvæði til bráðabirgða sem fól í sér undanþágu fram til 15. apríl 2011 frá því að nota ökurita. Hins vegar var þeim flutningafyrirtækjum sem voru með slíka bíla í rekstri gert skylt að semja tímaáætlun og vaktskrá þar sem fram kæmi fyrir hvern ökumann, nafn hans, bækistöð og fyrirfram ákveðin tímaáætlun fyrir mismunandi vinnu, aðra vinnu, vinnuhlé og tiltækileika ökumanns og skyldi hver ökumaður hafa í höndum úrdrátt af vaktskránni og geta framvísað henni við eftirlit ef fram á það yrði farið.

 

Reglugerðina er hér að finna. 

 

Þessar undanþágugreinar falla þá úr gildi:

7. gr.
Sérstök undanþága frá aksturstíma.

Þegar ekið er með ferskvöru á áætlunarleiðunum höfuðborgarsvæðið - Ísafjörður, höfuðborgarsvæðið - Neskaupstaður eða höfuðborgarsvæðið - Egilsstaðir og til baka á tímabilinu 30. október 2010 til 15. apríl 2011 er heimilt að lengja daglegan aksturstíma skv. 1. mgr. 6. gr. í allt að 11 klst. fjórum sinnum í viku.

Nýti ökumaður sér undanþáguheimild skv. grein þessari ber ökumanni að prenta út úr rafrænum ökurita upplýsingar um viðkomandi akstur og skrá upphafsstað og lokastað.


9. gr.
Sérstök undanþága vegna hlés frá akstri.

Á tímabilinu 30. október 2010 til 15. apríl 2011 má ökumaður lengja aksturstímann skv. 8. gr. um hálfa klst. þannig að hann geri hlé á akstri eftir allt að 5 klst. þegar ekið er frá höfuðborgarsvæðinu til Freysness, Austur-Skaftafellssýslu og frá Freysnesi til Egilsstaða.