Fréttir
  • Vaðlaheiðargöng hf. undirskrift
  • Séð af Vaðlaheiði yfir Fnjóská

Stofnfundur Vaðlaheiðarganga hf.

hlutafélag stofnað um gerð ganganna á Akureyri

9.3.2011

Stofnfundur Vaðlaheiðarganga hf. var haldinn á Akureyri í dag 9. mars. Félagið mun annast gerð Vaðlaheiðarganga og er í eigu Vegagerðarinnar  sem fer með 51 prósents hlut og Greiðrar leiðar ehf. sem fer fyrir 49 prósentum. 

Forvalsgögn eru nánast tilbúin og verða send út fljótlega. Áætlað er að bjóða út verkið í vor. Reiknað er með að framkvæmdir geti hafist í haust og að þeim ljúki og göngin opni fyrir árslok 2014.

Hlutafélagið Vaðlaheiðargöng hf. var stofnað samkvæmt heimild í lögum um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir sem Alþingi samþykkti 16. júní 2010.

Hlutafélagið hefur það að markmiði að standa að gerð jarðganga undir Vaðlaheiði ásamt vegalagningu að þeim auk annars nauðsynlegs undirbúnings. Samkvæmt lögunum er ráðherra einnig heimilt að fela hlutafélaginu að annast rekstur og viðhald ganganna að byggingu lokinni.

Stjórn Vaðlaheiðarganga hf. er í upphafi skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara, þeim verður síðan fjölgað í fimm. Stjórnin skal vinna að byggingu Vaðlaheiðarganga í samráði og samvinnu við helstu hagsmunaaðila verkefnisins. Félaginu er heimilt að innheimta gjald fyrir notkun gagnanna og skal það standa undir kostnaði við undirbúning og framkvæmd auk eftirlits og kostnaðar við álagningu og innheimtu gjalda.

Stjórnarmenn voru skipuð þau Kristín H. Sigurbjörnsdóttir, Kristján L. Möller, Pétur Þór Jónasson og til vara Huginn Freyr Þorsteinsson, Sigrún Björk Jakobsdóttir og Halldór Jóhannsson.

Vaðlaheiðargöng verða 7,5 km löng með vegskálum beggja vegna. Lengd vegskála 280 m. Þversnið ganganna verður 9,5 m og vegtengingar 4,1 km. Grafnir verða út um 700 þúsund m3 þar af 500 þúsund m3 Eyjafjarðarmegin. Áætlaður kostnaður á verðlagi ársins 2011 er 10,4 milljarðar króna.

Vaðlaheiðargöng munu stytta Hringveginn um 16 km og áætluð umferð við opnun ganganna er um 1400 bílar á sólarhring. 

Undir stofnsamþykktina skrifuðu Hreinn Haraldsson vegamálastjóri fyrir hönd Vegagerðarinnar og Pétur Þór Jónasson framkvæmdastjóri fyrir hönd Greiðrar leiðar ehf.