Fréttir
  • Umferðin í janúar
  • Umferði úr árið 2010

Mikill samdráttur umferðar í janúar

umferðin á 16 völdum talningarstöðum dróst saman um heil átta prósent

2.2.2011

Umferðin í janúar dróst saman um tæplega átta prósent borin saman við umferðina í janúar 2010 - á 16 völdum talningarstöðum á Hringvegi. Þetta er gífurlegur samdráttur en í ljós verður að koma hvort hann eigi einungis við um janúarmánuð eða muni halda áfram eftir því sem á árið líður.

Búið er að rýna gögn fyrir árið 2010 og kom í ljós að mælitæki var bilað og sýndi kerfisbundið minni umferð. Því er niðurstaða ársins að umferðin á þessum 16 völdu talningarstöðum dróst saman um 1,8 prósent sem er nokkuð minni samdráttur en órýndu tölurnar bentu til.

Niðurstaða akstursuppgjörs fyrir árið 2010 á 16. völdum talningastöðum á Hringvegi, er 1,8% samdráttur miðað við árið 2009. Lengi vel stefndi í mun meiri samdrátt en eftir að tölur höfðu verið rýndar kom í ljós að mælitæki á Hellisheiði hafði bilað, svo það sýndi kerfisbundið of litla umferð, sem ekki var hægt að sjá fyrr en að allt árið lá fyrir. Þegar leiðrétt hafði verið fyrir biluninni varð áðurnefnt hlutfall niðurstaðan. Nú kann tæpur 2% samdráttur að virðast lítill en þetta þýðir að, um er að ræða, nánast sama akstur og var árið 2008 - sem þá hafði ekki verið minni síðan árið 2006 á mælipunktunum 16, sjá meðfylgjandi línurit og talnaupplýsingar. (Í pdf-skjalinu má einnig sjá línuritin sem fylgja þessari frétt í betri stærð)

Samdráttur varð í akstri á öllum landssvæðum, mest á Austurlandi 4,3% en minnstur á Suðurlandi eða 0,4% - sjá nánar eftirfarandi:

 

Suðurland      - 0,4 %
Höfuðborgarsvæðið       - 3,4 %
Vesturland      - 1,4 %
Norðurland       - 0,9 %
Austurland       - 4,3 %
Í heild       - 1,8 %

 

Mismunur áranna 2010 og 2011.

Nú liggja fyrir aksturstölur í janúar 2011. Séu þær bornar saman við janúar 2010, kemur í ljós tæplega 8% samdráttur milli janúarmánaða, sem verður að segjast að sé gríðarlega mikill, sé tekið mið af mælingum fyrri ára. Aðeins einu sinni áður, frá árinu 2005, hefur orðið samdráttur í akstri milli janúarmánaða en hann varð á milli áranna 2009 og 2010 eða 1,2%, sjá nánar töfluna.

Eins og fram kemur í töflunni hér fyrir neðan, sést að þetta er í fyrsta sinn sem samdráttur mælist á öllum landssvæðum samtímis, milli janúarmánaða.

 

Samanburður

 

 

Fróðlegt verður að fylgjast með framhaldinu, þ.e.a.s. hvort þessi mikli samdráttur haldist eða hvort akstur í næstu mánuðum dragi úr honum. Fyrirfram verður að telja það fremur ólíklegt, í ljósi mælinga fyrri ára, að svo mikill samdráttur geti haldist áfram út árið. Jafnvel helmingi minni samdráttur yrði sögulegur.

Vegagerðin, mun innan skamms, birta tölur yfir akstur á þjóðvegum innan Höfuðborgarsvæðisins.

 

 

Í ljósi reynslunnar skal það tekið fram að aksturstölur fyrir árið 2011 eru órýnd gögn, sem geta tekið breytingum þegar árið er gert upp.

 

Frekari upplýsingar gefur Friðleifur I Brynjarsson í fib@vegagerdin.is eða í síma 522-1817