Fréttir
  • Framkvæmdir hefjast við breikkun Suðurlandsvegar

Nú þegar stefnt á ódýrari lausnir

valið stendur ekki á milli þess að fara ódýrari leið og sleppa vegtollum

10.1.2011

Þess misskilnings hefur gætt í umræðu um veggjöld á vegum útfrá höfuðborginni að val standi á milli þess að fara „dýra“ leið með vegtollum eða byggja ódýrari veg og sleppa vegtollum. Innanríkisráðherra hefur að undanförnu lagt áherslu á að valið stendur ekki á milli þess. Valið stendur á milli þess að fara í framkvæmdirnar og greiða með veggjöldum eða fara ekki í þær fyrr en þá eftir nokkur ár.

Nú þegar er unnið að því að notast við ódýrari lausnir, hluti vegarins milli Reykjavíkur og Selfoss verður 2+1 vegur, allur vegurinn að Hvalfjarðargöngum yrði þannig en sá hluti Reykjanesbrautar sem enn á eftir að ljúka yrði 2+2 vegur. Einnig er ráðgert að til að byrja með verði ekki byggð mislæg vegamót á Suðurlandsvegi en í því felst helsti verðmunurinn.

Lausnir sem miða við að mislæg vegamót verði byggð eru mun dýrari en þær sem miða við vegamót í plani.

Sem dæmi má nefna að 2+2 vegur frá Hólmsá til Hveragerðis myndi kosta um 9,2 milljarða króna, 2+2 vegur með þröngu þversniði og án mislægra vegamóta um 5,6 milljarða króna en 2+1 vegur án mislægra vegamóta 3,7 milljarða króna. En þar sem hluti vegarins er þegar 2+1, þ.e.a.s. í Svínahrauninu er samburðurinn ekki alveg réttur. Ef kostnaður við byggingu þess kafla er tekinn með yrði heildarkostnaður við 2+1 veg frá Hólmsá til Hveragerðis um 4,5 milljarðar króna og þá ríflega milljarði kostnaðarminni en ódýrari 2+2 lausnin.

Ekki er að heyra á fulltrúum sveitarfélaga á Suðurlandi að þeim hugnist að vegurinn milli Hveragerðis og Selfoss verði 2+1 vegur, og reyndar var það lengi baráttumál þeirra eins og fulltrúa FÍB fyrir fáum árum að alfarið yrði horfið frá 2+1 lausnum á Suðurlandsvegi.

Hvað sem því líður þá er ríkissjóður ekki aflögufær eins og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur bent á, það á bæði við um dýru lausnina, ódýrustu lausnina og þá leið sem ráðgert hefur verið að fara, þ.e.a.s. blandaða leið af 2+1 og 2+2 vegum án mislægra vegamóta að mestu.