Fréttir
  • Suðurlandsvegur verk hafið

Innheimtukostnaður líklegur 5 - 10 % af tekjum

vegna breikkunar stofnbrauta að höfuðborginni

16.12.2010

Fullyrt hefur verið í umræðunni að undanförnu að kostnaður við innheimtu veggjalda væri 28% af tekjum og vísað meðal annars til Hvalfjarðarganga. Þessi tala er úr lausu lofti gripin og er ekki í nokkrum takti við innheimtukostnað í Hvalfjarðargöngunum sem er um 13% af tekjum. Innheimtan í Hvalfjarðargöngunum er hálfsjálfvirk sem þýðir að bæði er unnt að greiða veggjaldið sjálfvirkt og einnig á handvirkan hátt í mannaðri gjaldstöð.

Innheimtuaðferðin í Hvalfirði er barn síns tíma og á sér sögulegar skýringar. Nútímagjaldstöðvar erlendis hafa verið að þokast í þá átt að innheimtan verði alsjálfvirk. Með því móti hefur tekist að koma innheimtukostnaðinum niður fyrir 10% og víða í 5-7% af tekjum.

Sjálfvirk innheimta í gjaldstöðvum byggist á því að lesið er af tölvukubbi í ökutækjunum sem um gjaldstöðvarnar fara og ferðin gjaldfærð. Ef ekki er innistæða á tölvukubbnum eða ökutækið er ekki með tölvukubb er tekin mynd af bílnúmerinu og reikningur sendur. Mögulegt er einnig að greiða með greiðslukorti á sérrein til hliðar við veg og losna þannig við myndatökuna og hugsanlegan aukakostnað sem henni fylgir. Ekkert hefur verið ákveðið um þátttöku bíleigenda í tölvukubbum eða öðrum búnaði, sá kostnaður getur eins verið á hendi rekstraraðila veganna.

Meginmarkmiðið með sjálfvirkri innheimtu er að tefja ekki umferðina og halda þannig uppi frjálsu flæði hennar auk þess að halda innheimtukostnaði við gjaldheimtuna í lágmarki.

 

 

Skýringarmynd, dæmi um alsjálfvirka innheimtu veggjalda:

 

Veggjöld skýringarmynd