Fréttir
  • Strandavegur - Yfirlitskort

Strandavegur ekki háður mati á umhverfisáhrifum

samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar

10.12.2010

Það er niðurstaða Skipulagsstofnunar að lagning Strandavegar (643), Djúpvegur – Geirmundarstaðavegur, í Strandabyggð sé ekki líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Framkvæmdasvæði er í Strandabyggð og nýir vegir liggja um lönd jarðanna Hrófbergs, Stakkaness og Grænaness.

Stefnt er að því að framkvæmdir við verkið hefjist 2011 og að verklok verði 2012.

Sjá ákvörðun Skipulagsstofnunar

Sjá kynningu á verkinu

Í greinargerð Vegageðarinnar kemur fram að framkvæmdirnar felist í lagningu 2,8 km langs kafla á Strandavegi (643), af Djúpvegi í botni Steingrímsfjarðar að Geirmundarstaðavegi í mynni Selárdals. Veglínan liggi til norðurs frá Djúpvegi við ósa Staðarár, yfir ósasvæðið og áreyrarnar, að mestu með sjó fyrir Grænanes og síðan upp bakkana á núverandi veg. Jafnframt muni legu Staðarvegar (0,70 km) verða breytt og Stakkanesvegar (0,16 km) og tengingu Grænaness við Strandaveg (0,26 km). Framkvæmdin sé lokaáfanginn við að leggja bundið slitlag á leiðina milli Hólmavíkur og Drangsness.

Fram kemur að heildarlengd nýrra vega sé tæpir 4,0 km og liggi nýjar veglínur að mestu leyti fjarri núverandi vegum. Selá skipti löndum milli sveitarfélaganna. Nýr kafli Strandavegar verði af vegtegund C8, sem sé 8,0 m breiður en aðrir vegir verði af vegtegund D4, 4,0 m breiðir. Framkvæmdasvæði sé í Strandabyggð og nýir vegir liggi um lönd jarðanna Hrófbergs, Stakkaness og Grænaness.

Áætluð heildarefnisþörf í veginn sé um 170 þús. m³ og heildarmagn skeringa um 74þús m³. Gert er ráð fyrir að efni úr skeringum verði að mestu nýtt í veginn en úr námu C við Vörðukleif komi um 8300 m³, úr námu B við Hálsgötu um 6500 m³, úr námu A við Selá um 27.000 m³, úr námum Dog E í Staðará um 47.000 m³ og úr núverandi vegum um 19.000 m³. Gert er ráð fyrir að byggja tvíbreiðri brú yfir Staðará. Námur D og E séu á landamerkjum Stakkaness og Hofstaða, náma A á landamerkjum Geirmundarstaða og Stakkaness en námur B og C í landi Bassastaða í Kaldrananeshreppi.

Tilgangur framkvæmdar byggist á markmiðum Vegagerðarinnar og samgönguáætlunar 2009-2012 um að auka greiðfærni og umferðaröryggi. Stefnt sé að því að framkvæmdir við verkið hefjist 2011 og að verklok verði 2012.