Fréttir
  • Héðinsfjörður

Kröfu um skaðabætur vísað frá

Hérðasdómur Reykjavíkur hefur vísað frá kröfu um bætur vegna útboðs Héðinsfjarðarganga sem hætt var við.

9.12.2010

Íslenskir aðalverktakar hf. og NCC International AS höfðuðu skaðabótamál á hendur íslenska ríkinu vegna þess að hætt var við fyrra útboð Héðinsfjarðarganga og kröfðust nærri 500 milljóna króna bóta.

Með dómi Hæstaréttar árið 2005 var viðurkennd skaðabótaskylda Vegagerðarinnar við stefnendur vegna missis hagnaðar sem þeir kynnu að hafa notið, hefði ekki komið til ákvörðunar um að hafna tilboði þeirra í gerð Héðinsfjarðarganga. Í dóminum var þó engu slegið föstu um í hvaða mæli sú ákvörðun hefði leitt til tjóns fyrir stefnendur. Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í dag frá málinu sem höfðað var í kjölfar dómsins.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur

Úr niðurstöðu dómsins:

"Fallast má á það með stefnendum að örðugt er að færa sönnur á raunverulegt tjón þeirra vegna ákvörðunar stefnda um að hafna tilboði þeirra í gerð Héðinsfjarðarganga. Þrátt fyrir yfirlýsingu þeirra um að ekki sé unnt að afla frekari gagna og að kröfum þeirra verði ekki hagað á annan hátt en að framan greinir, telur dómurinn engu að síður víst að stefnendur búi báðir yfir ýmsum upplýsingum og gögnum um rekstur, verkefni og afkomu fyrirtækjanna á þeim tíma sem hér skiptir máli, þ.á m. úr bókhaldi þeirra, sem ætla má að betur væru fallin til að styðja við kröfur þeirra og málatilbúnað að öðru leyti. Verður að ætla að þeim hafi verið í lófa lagið að afla þeirra gagna og leggja þau fram. Það gerðu þeir þó ekki, en kusu þess í stað að reisa kröfur sínar á fyrirliggjandi gögnum, sem dómurinn telur allsendis ófullnægjandi til þess að efnisdómur verði felldur á þær. Er því óhjákvæmilegt að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi."