Fréttir
  • Miklubraut

Vegrið besta lausnin

Vegagerðin vill vegrið undir brúna vestan Rauðarárstígs

19.10.2010

Þar sem Miklubrautin endar og Nýja Hringbrautin tekur við er hættulegur staður í umferðinni í Reykjavík. Vegagerðin vill setja upp vegrið frá því að beygja byrjar sunnan Rauðarárstígs og út fyrir göngubrú vestan Bústaðavegarbrúarinnar.

Málið var nýlega rætt hjá samráðshópi um umferðaröryggi þar sem fundarmenn voru sammála um að um hættulegan slysastað sé að ræða. Vegagerðin er með tilbúnar teikningar af tvöföldu vegriði og telur öryggi best tryggt með þeim hætti.

Fundarmenn frá rannsóknarnefnd umferðarslysa, Vegagerðinni, Reykjavíkurborg, Sjóvá, lögreglunni, samgönguráðuneytinu og Umferðarstofu voru sammála um þörfina fyrir vegrið á þessum stað en málið er til skoðunar hjá umhverfis- og samgönguráði Reykjavíkurborgar. Menn voru líka sammála um að æskilegt væri að setja upp hraðamyndavél á þessum stað.

Umhverfis- og samgönguráð Reykjavíkurborgar vill hinsvegar frekar setja upp hraðamyndavélar og hugsanlega steinker eða steypta kassa þar sem vegrið myndi ýta undir hraðakstur.

Vegagerð telur að vegrið sem byrjaði áður en beygjan á Miklubraut hefst og næði vestur fyrir göngubrú til móts við Landspítala væri besta lausnin.  Á þann hátt myndi takast að slá margar flugur í einu höggi.

Í fyrsta lagi myndi vegriðið koma í veg fyrir að þeir sem ækju út úr beygjunni lentu á víragirðingunni sem er á eyjunni en reynslan hefur sýnt að teinar úr girðingunni hafa slasað fólk.  Í öðru lagi kæmi vegrið í veg fyrir að þeir sem aka út úr beygjunni aki framan á bíl sem kemur úr gagnstæðri átt.  Í þriðja lagi kæmi vegriðið í veg fyrir að menn aki á brúarstólpa þar sem Bústaðavegur/Snorrabraut fer yfir Miklubraut/Hringbraut.  Í fjórða lagi kæmi vegriðið í veg fyrir að menn ækju á stólpa göngubrúarinnar sem þarna er.

 

Miklabraut

 

Miklabraut

 

Miklabraut

 

Miklabraut

 

Miklabraut