Fréttir
  • Herjólfur

Um siglingar Herjólfs til Þorlákshafnar

litið til hafnarinnar sem neyðarhafnar

9.9.2010

Vegagerðin hefur haft áhuga á því að nýta Þorlákshöfn sem neyðarhöfn vegna siglinga Herjólfs milli Vestmannaeyja og hinnar nýju Landeyjahafnar, a.m.k. meðan reynsla er að fást af nýju höfninni.

Síðastliðið vor var rætt var við sveitarfélagið Ölfuss um möguleika á þessu fram til næstu áramóta til að byrja með. Vegagerðin gat þá ekki gengið að kröfu Þorlákshafnar um hafnargjöld til jafns við það að Herjólfur sigldi sem áður, þ.e.a.s. tvær ferðir á dag hvort sem nota þyrfti aðstöðuna eða ekki.

Ekkert varð því af samningum en Vegagerðin var tilbúin til samninga á öðrum forsendum og var það í höndum Þorlákshafnar hvort áhugi væri á því eða ekki. Svo kom að áhugi var til staðar og því óskaði höfnin eftir fundi með Vegagerðinni sem haldinn var í gær 8. september.

Þar kom fram að sveitarfélagið Ölfuss er nú tilbúið til að skoða lægra gjald og unnið er að tillögum í þá veru og vonandi nást samningar um hafnargjöldin sem fyrst..

Staðan í dag er sú að gosið í Eyjafjallajökli og óhagstæðar vindáttir hafa lokað höfninni en vonast er til að það séu aðeins tímabundnir örðugleikar. Stefnan er því sú að sigla áfram á Landeyjahöfn svo sem kostur er, enda hefur reynslan þessar fyrstu vikur sýnt að Vestmannaeyingar og almenningur hefur tekið hinni nýju siglingaleið fagnandi. Fyrstu fimm  vikurnar voru farþegar með Herjólfi meira en 73.000 samanborið við 127.000 farþega allt árið í fyrra.

Næstu mánuði fæst ómetanleg reynsla af siglingum í  Landeyjahöfn sem nýtist til að meta hvernig skip hentar best. Samgönguráðherra hefur boðað að stýrihópur til að undirbúa byggingu nýrrar ferju verði skipaður en ekki mun vera búið að skipa þann hóp.