Fréttir
  • Herjólfur í Landeyjahöfn

Ný áætlun fyrir Herjólf

tekur mið af sjávarföllum

6.9.2010

Næstu daga mun Herjólfur sigla milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar eftir sjávarföllum og áætlun sem unnin er í samráði við Siglingastofnun. Gosefni úr Eyjafjallajökli hægði á siglingu Herjólfs inn í Landeyjahöfn í gær. Ekki verður siglt til Þorlákshafnar.

Viðvarandi óhagstæðar vindáttir hafa leitt til þess að gosefni hafa safnast saman fyrir framan höfnina. Skarðið í rifið fyrir utan innsiglinguna í höfnina er hinsvegar vel opið. Dýpkunarskip býður færis í Reykjavík og gæti verið komið í Landeyjahöfn á fimmtudag.

Líkt og fram kemur á vef Siglingastofnunar þá hefur Lóðsinn í Vestmannaeyjum unnið að því að mæla dýptina í höfninni til að meta aðstæður. Stórstreymt er næstu daga og verða þær aðstæður nýttar til að sigla megi Herjólfi milli lands og Eyja svo oft sem kostur er.

Áætlunin verður svona næstu daga, ekki verður siglt í dag 6. september. Sjá líka hjá Eimskipi sem sér um reksturinn.

Rétt er að minna á að Herjólfur ristir metra dýpra en ferja sem áætlað var að smíða sérstaklega fyrir þessar siglingar. Það eru gosefni úr Eyjafjallajökli sem valda vandræðunum í dag, ekki veðrið eða aðrar náttúrulegar aðstæður sem þó alltaf megi reikna með að leiði til frátafa. Ekki er beinlínis um að ræða að Herjólf taki niður í höfninni vegna þessa heldur veldur fyrst og fremst þykkt og magn gosefnanna því að það hægir á siglingunni skipsins.

Staðan verður endurmetin þegar líða tekur á vikuna og ljóst verður með dýpkun hafnarinnar.