Fréttir
  • 2+1 vegur

Viðhorfsbreyting í vegagerð

hrunið í efnahagslífinu hefur sín áhrif

3.9.2010

Það er óhætt að segja að efnahagshrunið hafi haft víðtæk áhrif á Íslandi. Fyrir hrun var nokkuð augljóst að almenningsálitið í landinu var á því að varla nokkuð annað kæmi til greina en að leggja 2+2 veg alla leið frá Reykjavík og austur fyrir Selfoss. Vegagerðin hafði þá látið hanna 2+1 veg stóran hluta þeirrar leiðar (2+2 á milli Hveragerðis og Selfoss) en fallið var frá því og ákveðið að vegurinn yrði 2+2 alla leið. Ákvörðun sem var tekin af stjórnmálamönnum eftir þrýsting frá almenningi.

Fljótlega eftir hrun var þó ákveðið að breyta þessu og leggja 2+2 veg næst Reykjavík, 2+1 veg yfir Hellisheiðina og 2+2 veg milli Hveragerðis og Selfoss. Almenn ánægja virtist vera með þessa breytingu á þeim tíma, að minnsta kosti meðal sveitarstjórnarmanna.

Vegagerðin fagnar því að nú virðist sem margir hafi tekið 2+1 vegformið í sátt en það hefur verið notað víða erlendis með góðum árangri og eru Svíar þar fremstir í flokki. Með þessu móti má nýta fjármagnið betur með því að aðskilja akreinar á lengri köflum en ella hefði verið unnt. Vegagerðin hefur verið áfram um að nýta þetta vegform þar sem það á við og víst er að í framtíðinni mun 2+1 vegur geta nýst Íslendingum vel. Það leit nefnilega út fyrir um tíma að almenningi þætti ekki annað koma til greina við breikkun vega en 2+2 vegur.

Nú heyrast hinsvegar í auknum mæli þær raddir að 2+2 vegur sé alltof dýr framkvæmd fyrir  Suðurlandsveginn. Nú síðast í Viðskiptablaðinu þar sem fjallað er um að breyttar hönnunarreglur kalli á dýrari vegagerð. Breyttar hönnunarreglur kalla þó fyrst og fremst á betri vegi en vissulega þýðir það einnig að vegagerðin verður oft dýrari en hefur ekki með 2+1 eða 2+2 lausnir að gera. Breytingar á hönnunarreglum hafa í mestum mæli snúist um það að auka umferðaröryggi. Sú breyting sem nú var gerð á hönnunarreglum sem meðal annars gerir ráð fyrir að í auknum mæli skuli taka tillit til sumarumferðar í stað meðatalsumferðar allt árið lýtur einnig að þessu, sökum þess hversu gífurlega mikill munur er á sumar- og vetrarumferð hér á landi á sumum vegum.

Það er eigi að síður misskilningur að breyttar hönnunarreglur þýði að skipting Suðurlandsvegar í 2+1 og 2+2 veg sé með þeim hætti sem ráðgert er, því að sú ákvörðun var tekin löngu áður en hönnunarreglurnar voru yfirfarnar og þeim breytt á þennan hátt.

Sú lausn sem nú hefur verið valin er að mörgu leyti skynsamleg þ.e.a.s. að blanda saman 2+1 og 2+2 vegi. Ástæða þess að hafa 2+2 veg næst Reykjavík felst í því að borgarmörkin og þar með umferðin færist sífellt austar þegar horft er til langrar framtíðar auk þess sem umferðin dreifist fyrir austan Litlu kaffistofuna á Hellisheiði og Þrengslin.

Reikna má með að afkastageta 2+1 vegar næst Reykjavík yrði fyrst fullnýtt og hagkvæmara þótti að fara beint í 2+2 veg, en án mislægra gatnamóta, sem munar miklu í kostnaði. Þá má einnig benda á að umferðin á þessum hluta vegarins er það mikill að töluverð truflun hefði orðið á umferð og framkvæmdum við breikkun núverandi vegar um eina akrein í stað þetta að geta unnið ótruflað utan vegar.

Umferðin er síðan einna mest á Suðurlandsveginum á milli Hveragerðis og Selfoss auk þess sem þar eru mjög margar tengingar inn á veginn sem öruggast er að leysa með 2+2 vegi, hliðarvegum og að hluta til mislægum gatnamótum.

G. Pétur Matthíasson

 

Unnið við 2+1

 

2+1 framkvæmd