Fréttir
  • Umferðin í júlí

Enn dregur úr umferð

5,7 prósenta minni umferð í júlí en í júlímánuði í fyrra

6.8.2010

Annan mánuðinn í röð dregst umferðin saman allsstaðar á landinu. Umferðin í júlí í ár er nærri sex prósentum minni en í sama mánuði í fyrra og frá áramótum hefur umferðin á 16 völdum talningarstöðum á Hringveginum dregist saman um nærri fimm prósent.

Umferðin í júlí reyndist minni en umferðin í sama mánuði árin 2007 og 2009 en lítillega meiri en 2008. Frá áramótum, fyrstu sjö mánuði ársins, er umferðin svipuð og hún var á milli áranna 2006 og 2007. 

Í júlímánuði líkt og í júní er um samdrátt að ræða í umferðinni á öllum landssvæðum samtímis. Eins og í júní þá dregst umferðin mest saman á Suðurlandi í júlí eða 12,6% og líka sé horft á tölur frá áramótum eða 8,9%. Það er ljóst að það stefnir í verulegan samdrátt í umferð um Suðurland. Það kann að vera að nýja Landeyjahöfnin í Bakkafjöru verði til að draga úr samdrættinum það sem eftir er ársins.

Umferð dregst minnst saman á Norðurlandi bæði milli júlí mánaða 0,1% og frá áramótum 0,4%..

Yfir allt landið, í heild, dregst umferðin saman um 5,7% milli júlí mánaða og 4,8% frá áramótum.

 

 

Samanburður 

 

Umferðartölur fyrir júlímánuð sýna að júlíumferðin er mun minni en árið 2009 og 2007 en aðeins meiri en árið 2008. En þegar horft er til talna frá áramótum liggur umferðarmagnið mitt á milli áranna 2006 og 2007 eins og meðfylgjandi línurit sýna en þar má sjá heildarakstur og uppsafnaðan akstur milli ára, frá árinu 2005.

Þegar rýnt er í línurit er sýnir heildarakstur í hverjum mánuði má velta því fyrir sér hvort að umferðin sé að þjappast meira saman í júlí mánuði, árið 2010, en árin þar á undan.

Sé vafi um hvort að kreppan sé búin, þá sýna umferðartölur að svo er ekki.

Sjá talnaefni og línurit. 

 

Ath. umferðartölur fyrir árið 2010 eru órýndar, gætu því tekið breytingum við nánari skoðun Vegagerðarinnar þegar árið er gert upp.

Frekari upplýsingar gefur Friðleifur I Brynjarsson í fib@vegagerdin.is eða í síma 522-1809