Fréttir
  • Suðurlandsvegur breikkun 1. áfangi

Enn seinkun á breikkun Suðurlandsvegar, 1. áfanga

frá Litlu kaffistofunni að Lögbergsbrekku

5.7.2010

Kærunefnd útboðsmála hefur með úrskurði fellt úr gildi þá ákvörðun Vegagerðarinnar að semja við Vélaleigu AÞ ehf. um tvöföldun Hringvegar (1), Fossvellir - Draugahliðar, eða frá Lögbergsbrekku að Litlu kaffistofunni. Það var Háfell ehf sem kærði ákvörðun Vegagerðarinnar.

Ljóst er að því mun enn tefjast að framkvæmdir við þessa tvöföldun hefjist en það er álit úrskurðarnefndarinnar að tilboð Háfells hafi heldur ekki verið gilt og að verktakinn "hafi ekki sýnt fram á raunhæfa möguleika á að verða fyrir valinu í útboði[nu]."

Ágreiningurinn snerist um hvort miða ætti meðaltal ársveltu síðustu þriggja ára við hvert ár fyrir sig eða meðaltal áranna þriggja.

Arnarverk ehf. átti lægsta tilboð en þau voru opnuð 20. apríl. Verktakinn uppfyllti ekki skilyrði en það gerði Vélaleiga AÞ ehf. að mati Vegagerðarinnar, en hún átti næstlægsta tilboðið. Háfell átti þriðja lægsta tilboðið. Sjá hér.

Úrskurðarnefnd útboðsmála féllst á kröfu Háfells með ákvörðun þann 3. júní sl. og hefur nú sem sé fellt úrskurð sinn. Sjá úrskurðinn í heild sinni.

Segir í úrskurðinum:

"Kærði hefur lagt mikla áherslu á að heimilt hafi verið að taka tilboði Vélaleigu AÞ ehf. enda hafi meðaltalsvelta félagsins á síðustu þremur árum numið meira en 50% af tilboði þess. Telur hann þennan skilning í samræmi við ákvæði 49. gr. laga nr. 84/2007. Rekstur verktakafyrirtækja sé sveiflukenndur og meðaltalsvelta gefi betri mynd af stöðu þeirra. Byggir kærði á því að þessi skýring hans á ákvæði 1.8 í útboðslýsingu samræmist betur ákvæðum laga nr. 84/2007 en túlkun kæranda. Kröfur útboðslýsingar til lágmarksveltu hafi þann tilgang að sannreyna að fjárhagsstaða bjóðenda sé það trygg að þeir geti réttilega efnt tilboðið. Kærunefnd útboðsmála getur fallist á sjónarmið kærða að meðaltalsvelta yfir ákveðið tímabil gefi raunhæfari mynd af rekstri fyrirtækja heldur en ársvelta og slík sjónarmið eigi sér stoð í 49. gr. laga nr. 84/2007. Hins vegar telur nefndin að ekki verði litið framhjá þeim kröfum sem gerðar séu til kaupenda í 38. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu skulu útboðsgögn innihalda allar nauðsynlegar upplýsingar til að bjóðanda sé unnt að gera tilboð. Óskýrleiki í útboðsgögnum getur leitt til þess að útboð reynist ógilt. Er krafa um skýrleika útboðsgagna ennfremur í samræmi við meginreglur útboðsréttar um gegnsæi og jafnræði bjóðenda, sbr. 1. og 14. gr. laga nr. 84/2007. Eiga bjóðendur þannig að geta áttað sig á því fyrirfram hvernig staðið verður að mati á hagkvæmasta tilboði og hagað boðum 8 sínum í samræmi við það. Er það jafnan kaupenda að bera hallann af óskýrum ákvæðum útboðsgagna, enda er framsetning útboðsskilmála jafnan í verkahring þeirra. Hafi það verið ætlun kærða að meðaltalsvelta síðustu þriggja ára hafi átt að gilda við mat á veltu bjóðenda hefði honum verið í lófa lagið að setja slíkt fram í útboðslýsingu með skýrum hætti. Það gerði hann hins vegar ekki og var þar með hætta fyrir hendi á að jafnræði bjóðenda yrði raskað. Kærunefnd útboðsmála telur að túlka verði umrætt ákvæði 1.8 í útboðsskilmálum samkvæmt orðanna hljóðan. Er það mat nefndarinnar að skilmálarnir verði því ekki skildir öðruvísi en að krafist hafi verið að velta hvers árs hafi náð sem svaraði að minnsta kosti 50% af tilboði bjóðenda í verkið en ekki að meðaltali. Verður krafa kæranda því tekin til greina og felld úr gildi ákvörðun kærða þess efnis að ganga til samningaviðræðna við Vélaleigu AÞ ehf."

Þetta dugir þó ekki til þess að Vegagerðin geti samið við Háfell því:

"Samkvæmt ákvæði 2.2.2 í útboðslýsingu bar kæranda að skila til kærða staðfestingu á því að hann væri í skilum með opinber gjöld og lífeyrissjóðsiðgjöld innan sjö daga frá opnun tilboða. Það gerði kærandi ekki þrátt fyrir skýra kröfu ákvæðisins og beiðni kærða þar um heldur lét nægja að leggja fram yfirlýsingu um að hann myndi afla umræddra gagna ef gengið yrði til samninga við hann. Þá þegar varð ljóst að tilboð kæranda var ekki gilt. Er það mat kærunefndar útboðsmála að kærandi hafi ekki sýnt fram á raunhæfa möguleika á að verða fyrir valinu í útboði kærða „Hringvegur (1), tvöföldun Fossvellir – Draugahlíðar." Eru skilyrði 1. mgr. 101. gr. laga nr. 84/2007 því ekki uppfyllt."