Fréttir
  • NVF 75 ára

Norræna vegasambandið 75 ára

var stofnað í Stokkhólmi 19. júní 1935

25.6.2010

Þann 19. júní sl. fagnaði Norræna vegasambandið 75 ára afmæli sínu. Það var stofnað í Stokkhólmi þann dag árið 1935. Stofnríkin voru Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð. Færeyjar urðu síðan fullgildur meðlimur árið 1975.

 

NVF er ekki sérlega vel þekkt utan fólks sem vinnur að vegagerð á Norðurlöndunum þrátt fyrir háan aldur sambandsins. Innan þess fer eigi að síður fram gífurlega mikið starf en sambandið er fyrst og fremst vettvangur fyrir norrænu ríkin til að skiptast á þekkingu á öllu því er kemur að vegagerð, viðhaldi vega, þjónustu, umferðaröryggi o.s.frv.

 

Innan NVF eru starfandi 16 norrænar tækninefndir. Hver nefnd á að bakhjarli samskonar nefnd í löndunum sex. Færeyingar og Íslendingar taka þátt í því starfi eins og kostur er en eru ekki þátttakendur í öllum nefndum. Þannig eru það ansi margir sem koma að starfi nefndanna, og skipta þeir mörgum tugum sem eru að baki hverri nefnd. Í heild eru um 800 fullgildir meðlimir í NVF.

 

Nefndirnar fjalla um til dæmis brýr, göng, umferðaröryggi, slitlag, aðgengi, tölvuumsjónarkefi o.s.frv. Eða í raun allt sem snýr að nútíma vegagerð.

 

Það eru verktakar í vegagerð, ráðgjafar á verkfræðistofum, starfsmenn vegagerðanna og fleiri slíkir á Norðurlöndunum sem taka þátt í starfi NVF.

 

Norræna vegasambandið og uppbygging þess í 16 tækninefndir byggir á sama fyrirkomulagi og hjá Alþjóða vegasambandinu PIARC sem fagnaði 100 ára afmæli sínu í fyrra. Líkt og hjá PIARC heldur NVF stóra ráðstefnu á fjögurra ára fresti. Via Nordica er hún kölluð og verður hún næst haldin í Reykjavík í júní 2012 undir yfirskriftinni Á krossgötum.

 

Það verður í fyrsta sinn sem ráðstefnan er haldin hér á landi og í raun er það nýja ráðstefnuhúsið, Harpan, sem gerir það mögulegt en reikna má með að 12 – 1500 gestir sæki ráðstefnuna á Íslandi.

 

Það er það einnig í fyrsta sinn í 75 ára sögu sambandsins sem Ísland leiðir starfið og er Hreinn Haraldsson vegamálastjóri formaður NVF á tímabilinu 2008 – 2012. Og þar af  leiðandi einnig fulltrúi allra Norrænu ríkjanna á vettvangi alþjóðasambandsins PIARC.

 

„Samgöngulega séð var Ísland mjög einangrað árið 1935 og því merkilegt að landið hafi frá upphafi tekið þátt í starfi Norræna vegasambandsins“, segir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri. „Það er óhætt að segja að þátttakan hefur verið óhemju mikilvægt fyrir tæknilegar framfarir í vegagerð á Íslandi öll þessi 75 ár. Það hefur oft skipt sköpum að þekkja persónulega til lykilmanna á hinum ýmsu sviðum vegagerðar annarsstaðar á Norðurlöndunum.  Auk þess hefur þátttakan ekki eingöngu opnað glugga út til Norðurlanda heldur líka áfram út hinn alþjóðlega heim vegagerðar,“ bætir hann við.

 

NVF lógó Ísland