Fréttir
  • Unnið við Svaðbælisá

Vegurinn inn í Þórsmörk lagfærður í vikunni

aðgerðir Vegagerðarinnar við Eyjafjallajökul

25.5.2010

Lagfæringar á veginum inn í Þórsmörk hefjast í vikunni og reiknað er með að fært verði inn í Mörk um næstu helgi. Það er eigi að síður í valdi almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra hvort umferð verði leyfð á svæðinu.

Vinna við endurbætur á varnargörðum við Svaðbælisá eru hafnar og heldur sú vinna áfram næstu vikur.

Vinna við aðra garða og endanlegur frágangur á bráðabrigðaviðgerð Hringvegarins við Markarfljótsbrúna fer fljótlega af stað. Reiknað er með að komið verði bundið slitalag á viðgerðina á Hringveginum í síðasta lagi í júlí.

Tilboð í lagfæringar og byggingu „varanlegs“ garðakerfis við Svaðbælisá verða opnuð nú í vikunni og á fyrsta áfanga að vera lokið í síðasta lagi 15. júní og að fullu 15. júlí. Þetta er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar og Landgræðslunnar en Vegagerðin sér um undirbúning og hefur umsjón með verkinu. Sjá kort.

Unnið hefur verið að því um helgina að flytja grjót í varnargarðana að austanverðu við Markarfljótsbrýrnar, bæði þá gömlu og þá nýju, sem skemmdust í flóðunum í upphafi gossins. Vinnan við lagfæringarnar hefjast nú í vikunni líka.

Framtíð varnargarða innst inn í Fljótshlíð verður rædd á fyrsta fundi samráðshóps sveitarfélaga, vegagerðarinnar og Landgræðslunnar en þeir garðar sem skemmdust í flóðinu eru fyrst og fremst landgræðslugarðar.

Í framhaldi þessa aðgerða verður upphleðsla aurs í farvegi Markarfljóts mæld og tekin ákvörðun í framhaldinu um hækkun og styrkingu alls varnargarðakerfisins reynist þess þörf.