Fréttir
  • Skrifað undir

Skrifað undir við ÍAV um Ullarnesbrekkuna

framkvæmdir hefjast strax

21.5.2010

Vegagerðin og Mosfellsbær skrifuðu í dag undir samning við ÍAV hf um tvöföldun Vesturlandsvegar milli Hafravatnsvegar og Þingvallavegar, Ullarnesbrekkuna svo kölluðu. ÍAV var lægstbjóðandi. Þetta er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar og Mosfellsbæjar og var einnig skrifað undir samning um það.

Verktakinn er þegar farinn að koma sér fyrir en verkið verður unnið í tveimur hlutum, í ár og á næsta ári.

Verkið felst í tvöföldun Hringvegar (1) milli Hafravatnsvegar og Þingvallavegar, en veghlutar verða aðskildir með vegriðum. Auk tvöföldunar Hringvegarins er fyrirhugað í samvinnu við Mosfellsbæ að tenging Áslands við hringveginn verði aflögð, biðstöð strætisvagna þeim megin færð sunnar auk þess sem hljóðvist verður bætt með lengingu og hækkun mana meðfram Hringveginum. Gönguleiðir verða lagfærðar og sett ný göngubrú yfir Varmá. Með þessari framkvæmd mun umferðaröryggi aukast til muna á vegkaflanum og umferð verður jafnari og greiðari. Á árinu 2010 verður unnið á kaflanum frá hringtorgi við Hafravatnsveg og fram yfir hringtorg við Álafossveg og á því að ljúka í lok október. Á árinu 2011 verða framkvæmdir frá Álafossvegi að Þingvallavegi og endanleg verklok verða í lok september 2011. Á framkvæmdatímanum verður reynt sem kostur er að takmarka truflanir á umferð. Verkið er í sameiginlegri forsjá Vegagerðarinnar og Mosfellsbæjar og verktaki er ÍAV hf.

Nánari lýsing á framkvæmd:

Á mótum Hringvegar og Álafossvegar skal gera tvöfalt þriggja arma hringtorg í stað núverandi einfalds hringtorgs. Milli hringtorgsins við Hafravatnsveg - Þverholt að hringtorginu við Álafossveg verður vegur breikkaður til suðurs en nyrðri kanturinn sem er nær íþróttasvæðinu helst óbreyttur. Á þessum kafla skal hækka og lengja hljóðmön sunnan vegar. Kaflinn norðan Álafossvegar að hringtorginu við Þingvallaveg verður breikkaður til norð-vesturs en núverandi vegkantur nær byggðinni breytist ekki nema á stuttum kafla næst hringtorginu við Álafossveg. Á kaflanum að Áslandi jafnframt gert ráð fyrir nýrri hljóðmön milli vegar og byggðar.

Brúin á Hringveginum yfir Varmá verður breikkuð beggja vegna núverandi vegar og undirgöngin sunnan Varmár lengd til austurs.  Stígur frá undirgöngunum verður fluttur fjær Hringveginum og lagður að nýrri göngubrú yfir Varmá og þaðan yfir Álafossveg um nýja miðeyju.  Undirgöng úr stáli við Áslandi verða lengd til vesturs í átt frá byggðinni.

ÍAV var lægstbjóðandi og bauð 257 milljónir króna. Niðurstöður útboðs.

 

Jónas Snæbjörnsson svæðistjóri hjá Vegagerðinni og Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjarar undirrituðu samstarfssamninginn. Kostnaðarhlutdeild Mosfellsbæjar er 11 prósent en 89 prósent lenda á Vegagerðinni af áætluðum heildarframkvæmdakostnaði.

Skrifað undir með Mosfellsbæ

 

 

Kort af framkvæmdunum:

 

Framkvæmdakort