Fréttir
  • Veggjöld

Veggjöld mjög algeng í Noregi

alls eru 49 veggjaldaverkefni í landinu og þeim fer fjölgandi

28.1.2010

Norðmenn hafa langa reynslu af því að fjármagna vegagerð með veggjöldum, í fyrstu var aðallega um að ræða verkefni þegar brýr voru byggðar og ferjusiglingar aflagðar en á síðari árum eru veggjöld í auknum mæli notuð til að fjármagna venjulegar framkvæmdir.

Vegagerðin og samgöngu- og sveitastjórnaráðuneytið héldu málstofu um veggjöld í samvinnu við norsku Vegagerðina um reynslu þeirra af vegjöldum, þar sem þetta kom fram.

Fimm norskir sérfræðingar héldu erindi á málstofunni auk þess sem vegamálastjóri kynnti stöðu mála á Íslandi. Hjá Norðmönnunum kom fram að 49 veggjaldaverkefni væru í gangi, þar af 37 með sjálfvirkri rafrænni innheimtu með AutoPASS líkt og notað er í Hvalfjarðargöngunum. Sjö verkefni eru í borgum, eða hringir í kringum borgir. Í sumum tilvikum er svo veggjaldið notað til að bæta almenningssamgöngur í borgunum.

Árið 2009 samþykkti norska Stórþingið 6 ný veggjaldaverkefni. Árin 2001 – 2009 lauk framkvæmdum við átta verkefni en 2 verkefnum lauk þannig að hætt var að innheimta veggjöld.

Gífurleg aukning hefur orðið á verkefnum af þessu tagi í vegagerð í Noregi og reiknað er með að á árunum 2010 – 2013 komi helmingur allra fjárveitinga í vegagerð af veggjöldum.

Veggjöldin eru mjög mismunandi, og mögulega greiða menn oft á langri leið en þá minna ef minni hluti vegar er notaður. Þannig geta veggjöldin verið frá 15 norskum krónum (NOK) upp í að í Osló er sett hámark þannig að ekki er greitt meira í hverjum mánuði fyrir hvern bíl en 1200 NOK en þá er um mikla notkun að ræða.

Það kemur heldur ekki á óvart að það er enginn sérstök ánægja með veggjöld í Noregi þrátt fyrir hversu oft þessi leið er farin, en helstu rök fyrir þessu eru að annars gætu vegfarendur þurft að bíða í 20-25 ár eftir framkvæmdum. Meiri ánægja er með veggjöldin eftir að þeim er komið á en í flestum tilvikum á vegfarandinn samt ekki möguleika á annarri leið.

Utan um hvert veggjaldaverkefni er stofnað fyrirtæki sem er alfarið í eigu ríkisins en einkafyrirtækjum er ekki heimilt að reka veggjaldaverkefni. Miðað er við að verkefnið standi í 15 ár en að þeim tíma liðnum á að skila veginum sem nýjum væri til Vegagerðarinnar norsku.

Glærurnar sem fylgdu erindum er að finna hér:

Hreinn Haraldsson: Ísland og veggjöld (pdf)

Lars Aksnes: Norska vegagerðin (pdf)

Lars Aksnes: Veggjöld í Noregi, pólitískt verkefni (pdf)

Arve Kirkevold: Saga og tölfræði (pdf)

Åge Jensen: Lög, reglur og skipulag (pdf)

James Odeck: Hagfræði veggjalda og ávinningur samfélagsins (pdf)

Lars Aksnes: Reynsla Norðmanna af OPS (Sameiginlegu verkefni hins opinbera og einkaaðila) (pdf)

Arve Kirkevold: AutoPASS stefnan og kerfið (pdf)

Geir Kaldheim: AutoPASS tæknin (pdf)