Fréttir
  • Jól 2009

Vetrarþjónusta Vegagerðarinnar um áramót

30.12.2009

Á öllum leiðum sem hafa 7 daga þjónustu verður þjónusta á nýársdag, en stefnt er að því að þá verði þessar leiðir almennt færar fyrir kl. 10:00.

Vakin er athygli á því að 1. janúar 2010 taka gildi nýjar reglur um vetrarþjónustu sem m.a. fela í sér að á vissum leiðum er þjónustudögum fækkað úr 7 í 5 eða 6 daga í viku og á þessum leiðum verður því engin þjónusta á Nýársdag.

Um er að ræða langleiðir s.s. á Vestfjarðavegi frá Búðardal að Brjánslæk, á Djúpvegi frá Vestfjarðavegi til Súðavíkur, á Innstrandarvegi, á Norðausturvegi frá Húsavík um Kópasker, Raufarhöfn, Þórshöfn, Vopnafjörð og um Vopnafjarðarheiði á Hringveg á Möðrudalsöræfum, á Hringvegi frá Mývatni að Fellabæ og frá Breiðdalsvík til Víkur í Mýrdal.

Á þessum leiðum verður aftur mokað á laugardag 2. janúar ef færð spillist á þessum leiðum.

Á gamlársdag er gert ráð fyrir þjónustu til kl. 14:00 en ef þörf krefur til kl. 17:00.

Það á þó ekki við um lengstu leiðir svo sem á Djúpvegi frá Súðavík til Hólmavíkur, Vestfjarðarvegi austan Brjánslækjar, á Vopnafjarðarheiði og á Hringvegi frá Mývatni að Fellabæ og frá Höfn í Vík. Þar hættir þjónusta í síðasta lagi kl. 14:00.

Frekari upplýsingar eru veittar í síma 1777 hjá upplýsingaþjónustu Vegagerðarinnar.