Fréttir
  • Uppsetning vegriðs í Jökuldal

Umræða um vegrið

Eitt af meginmarkmiðum Vegagerðarinnar er að umferðaröryggi sé á við það sem best gerist.

29.12.2009

Eitt af meginmarkmiðum Vegagerðarinnar er að umferðaröryggi sé á við það sem best gerist. Í stefnu Vegagerðarinnar um umferðaröryggismál kemur fram að „við hönnun, byggingu, viðhald og þjónustu vega mun Vegagerðin hafa öryggi vegfarenda í fyrirrúmi“.

Í stefnunni segir einnig: „Þar eð mikið umferðaröryggi er eitt af meginmarkmiðum Vegagerðarinnar, er eðlilegt að um það móti hún ákveðna stefnu til lengri tíma. Sú stefnumörkun á þá að hafa áhrif á alla vinnu Vegagerðarinnar þar sem umferðaröryggismál koma við sögu. Í allri starfsemi Vegagerðarinnar þarf sífellt að taka ákvarðanir sem geta haft áhrif á umferðaröryggi. Það getur verið allt frá vali á veglínum og notkun á vegstöðlum, til sumar- og vetrarþjónustu á nýjum og gömlum vegum. Þegar hagsmunir rekast á, svo sem milli kostnaðar, tíma, öryggis eða annarra þátta, er rétt að Vegagerðin láti öryggið ráða við ákvarðanir, eftir því sem gerlegt er.“

Ein áhrifamesta aðgerðin í umferðaröryggismálum er að aðskilja akstursstefnur. Sænskar rannsóknir sýna að það bæti umferðaröryggið álíka mikið að fara úr venjulegum tveggja akreina vegi í 2+1 veg með vegriði og að byggja 2+2 veg líkt og Reykjanesbrautina án vegriðs. Reynslan af Reykjanesbrautinni og fækkun alvarlegustu slysanna þar sýnir mikilvægi þess að aðskilja akstursstefnur.

Vegagerðin hefur ákveðið nýja og strangari veghönnunarreglur vegna byggingar nýrra vega. Þar er enn meiri áhersla á umferðaröryggi en áður, til dæmis hvað varðar vegrið og fláa á vegum. Þrátt fyrir hertari reglur er ekki gert ráð fyrir vegriði á fjögurra akreina vegi með 13 m miðdeili fyrr en umferðin er orðin meiri en 20.000 bílar að meðaltali á sólarhring.

Umferðin á Reykjanesbrautinni og á Suðurlandsvegi er mun minni en 20.000 bílar á sólarhring (ÁDU) eða ríflega 11.000 ÁDU á Reykjanesbrautinni, tæplega 9.000 ÁDU á Suðurlandsvegi neðan Sandskeiðs og ríflega 7.000 ÁDU á milli Hveragerðis og Selfoss.

Í umferðaröryggisáætlun stjórnvalda er lögð sérstök áhersla á lagfæringar á slysastöðum og úrbætur á umhverfi vega sem og á uppsetningu vegriða. Unnið hefur verið að þessu undanfarin ár og eru næg verkefni og vegna þess hversu mörg þau eru á 13 þúsund km löngu vegakerfinu er nauðsynlegt að forgangsraða. Auðvitað væri æskilegt að meira fé færi til þessa málaflokks.