Fréttir
  • Arnkötludalur formlega opnaður

Arnkötludalur formlega opnaður

bundið slitlag milli Reykjavíkur og Ísafjarðar

15.10.2009

Samgönguráðherra og vegamálastjóri klipptu á borða 14. október og afhjúpuðu samtímis stein með skildi þar sem fram kemur að nú er hægt að aka á bundnu slitlagi milli Reykjavíkur og Ísafjarðar og reyndar áfram til Bolungarvíkur.

Djúpvegur (61) um Gautsdal og Arnkötludal liggur frá Vestfjarðavegi (60) skammt vestan við Geiradalsá í Króksfirði um Gautsdal, yfir í Arnkötludal og að núverandi Djúpvegi skammt vestan við bæinn Hrófá í Steingrímsfirði. Með tilkomu þessa vegar verða ákveðin tímamót í samgöngusögu Vestfjarða.

Undanfarin ár hafa staðið yfir miklar vegaframkvæmdir í Ísafjarðardjúpi og sem kunnugt er var lokahönd nýlega lögð á mikla framkvæmd um Reykjanes í Djúpi með vígslu nýrrar brúar yfir Mjóafjörð. Við opnun vegarins um Arnkötludal verða norðanverðir Vestfirðir loksins tengdir Hringvegi með bundnu slitlagi alla leið. Þessi vegur styttir t.d. leiðina frá Ísafirði og Hólmavík til Reykjavíkur um 42 km.

Áður nefnd þverun Mjóafjarðar styttir þar að auki vetrarleiðina frá Ísafirði um 33 km. Alls styttist því vegalengdin að vetri til um 75 km og þar að auki má reikna með að ferðatíminn styttist verulega líka þegar farið er af miserfiðum malarvegum yfir á nútímaveg með bundnu slitlagi.

Ákveðið hefur verið að vegurinn um Arnkötludal verði hluti Djúpvegar (61) en hann lá áður frá Brú í Hrútafirði og norður Strandir. Vegurinn um Strandir mun því fá nýtt vegnúmer (68) og nýtt nafn.

Verkið var boðið út í ársbyrjun 2007.

Verktaki Ingileifur Jónsson ehf.

Framkvæmdir hófust í maí 2007.

Umsjón með undirbúningi verksins var í höndum Vegagerðarinnar í Borgarnesi og hönnunardeildar í Reykjavík.

Línuhönnun (nú Efla) sá um frumdrög, verkhönnun og gerð útboðsgagna.

Áður hafði Leið ehf. látið gera frumdrög og umhverfismat.

Nýframkvæmdadeild Vegagerðarinnar á Ísafirði var með eftirlit og umsjón með framkvæmdinni.

Þá má geta þess að Borgarverk sá sem undirverktaki um að leggja klæðingu á veginn en það verk var unnið á mettíma. Hafist var handa við það 7. september og klæðing var komin á þennan u.þ.b. 25 km kafla 24. september. Eftir er að leggja seinna lag klæðingar sem gert verður næsta sumar. Þá er einnig ólokið að setja upp nærri 6 km af vegriðum sem unnið verður að á næstunni.

Arnkötludalur formlega opnaður


Arnkötludalur formlega opnaður

Arnkötludalur formlega opnaður

 

Arnkötludalur formlega opnaður

 

Arnkötludalur formlega opnaður