Fréttir
  • Vestast á Hófaskarðsleið

Hnegg á heiði

af vegagerð á Hófaskarðsleið

2.9.2009

Töluverð umræða hefur orðið um þau vandræði sem hafa skapast við vegagerð á Hófaskarðsleið sem rekja má til andstöðu landeigenda á einni jörð við að vegur fari um land þeirra. Ljóst er að vegurinn verður ekki tekinn í notkun í ár líkt og til stóð. Hófaskarðsleið mun leysa af hólmi veg sem nú liggur fyrir Melrakkasléttu, stytta vegalengdir á milli sveitarfélaga á norðausturhorninu auk þess sem hinn nýi vegur verður mun betri en sá gamli. Vegur með bundnu slitlagi kemur í stað malarvegar.

Hafa margir orðið til þess að saka Vegagerðina um að hafa undirbúið málið illa og ekki vera tilbúna með land fyrir veg þegar þörfin kallar. Hafa ýmsir haft uppi stór orð að undanförnu og mátti til dæmis skilja það af frétt á Stöð 2 31. ágúst að læknir yrði þar innilokaður í allan vetur af því að Hófaskarðsleið yrði ekki tilbúin og það helst í næstu viku. Og helst mátti halda að þarna væri enginn vegur, hefði aldrei verið og að fólk hefði hreint ekki komist leiðar sinnar liðna áratugi. Á fréttamanninum mátti svo helst skilja að Vegagerðin hefði svona í kæruleysi gleymt að nefna það við landeiganda að þörf væri á landi undir veg.

Áhorfendur gerðu sér grein fyrir því að svo einfalt er málið ekki. Á undanförnum árum hefur viðhorf landeiganda til vegagerðar breyst þannig að andstaða við vegalagningu hefur aukist töluvert. Allur undirbúningur vegagerðar hefur aukist og tíminn sem fer í undirbúning lengist sífellt, t.d. vegna mats á umhverfisáhrifum og erfiðara er að ná samningum við landeigendur.

Ef Vegagerðin hefði til dæmis ekki hafist handa og boðið út verkið fyrr en búið væri að semja við landeigendur væri engin vegagerð á Hófaskarðsleið byrjuð og einnig óljóst hvort þar yrði farið af stað á næstu árum nú þegar efnahagurinn er einsog hann er. Hafist var handa við vegarlagninguna þótt ekki væri búið að semja við landeigendur um hvar vegur myndi liggja vestast á þessari leið. Það er reyndar ekkert óvenjulegt við það fyrirkomulag enda hefur þurft að undirbúa framkvæmdir með hraði síðustu misseri. Í flestum tilvikum næst að lokum samkomulag við landeigendur með beinum samningum. Annars, ef slíkt er alveg útilokað hefur Vegagerðin heimild til að grípa til eignarnámsheimildar vegalaga og eru þá bætur fyrir land metnar af Matsnefnd eignarnámsbóta. 

Útilokað reyndist að ná samningum við landeigendur jarðar, vestast á Hófaskarðsleið, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og var því talið nauðsynlegt að taka land eignarnámi. Landeigendur skutu eignarnámsákvörðun Vegagerðarinnar hins vegar til dómsstóla þar sem dómur í héraði féll Vegagerðinni í vil en Hæstiréttur sneri hins vegar dómi  Héraðsdóms við. Dómur Hæstaréttar kom Vegagerðinni mjög á óvart þar sem dómurinn taldi að ekki hefði verið fullreynt hvort unnt hefði verið að komast hjá eignarnámi, t.d. að fara frekar  yfir land bóndans sem var með ríkisjörð á leigu án eignarnáms í stað lands bóndans sem átti sína jörð. Vegagerðin hafði þó haldið því fram að betra væri að leggja veginn yfir eignarlandið bæði af umhverfislegum og af vegtæknilegum ástæðum. Hæstiréttur taldi ekki að Vegagerðin hefði sýnt nægilega fram á þetta og ógilti því eignarnámið.

Svona til að gera málið enn flóknara þá var jörðin sem áður var ríkisjörð seld að hluta áður en dómurinn gekk og því eru jarðirnar báðar í einkaeigu, önnur að hluta nú og hvorugur landeigandi fús til samninga við Vegagerðina um þær veglínur sem valið stóð um í upphafi. Dómurinn stendur eigi að síður og hefur Vegagerðin lagt allt kapp á að leita að mögulegri lausn á málinu en slíkt hefur ekki gengið þrautalaust.

Í því skyni ákvað Vegagerðin að hanna nýja línu mitt á milli hinna tveggja fyrri veglína, sem mun alfarið liggja yfir  jörðina sem áður var í ríkiseigu og hefur verið reynt að hanna þá línu í sem mestri sátt við ábúendur þeirrar jarðar.  Skipulagsstofnun hefur nú hins vegar kveðið upp úrskurð um að  sú leið  skuli sæta mati á umhverfisáhrifum þótt fyrri veglínur hafi þegar sætt slíku mati og verið samþykktar þar af hálfu Skipulagsstofnunar. Þurfi slíkt mat að fara fram á ný er  ljóst að  framkvæmdir muni tefjast enn frekar. Vegagerðin hefur nú kært þá ákvörðun til umhverfisráðherra en úrskurður hennar liggur ekki enn fyrir.

Það er alveg eðlilegt að íbúar á svæðinu vilji sem allra fyrst fara að nota hinn nýja veg enda mikil samgöngubót. Starfsmenn Vegagerðarinnar hafa ekki síður áhuga á að koma mannvirkjum sem fyrst í notkun. Það verður hinsvegar að fara eftir lögum og reglum ásamt leikreglum samfélagins hverju sinni og það gerir Vegagerðin. Hún getur ekki tryggt sér land til vegalagningar á annan hátt og þarf að sjálfsögðu að fylgja úrskurðum þar til bærra yfirvalda um það hvort  umhverfisáhrif framkvæmda skuli metin sérstaklega eða ekki.

G. Pétur Matthíasson