Fréttir
  • Kjalarnes

Skipulag vegna tvöföldunar Vesturlandsvegar er ekki tilbúið

vegna fréttar í Morgunblaðinu 24. júní 2009

24.6.2009

Nauðsynlegt er að gera alvarlegar athugasemdir við staðhæfingar viðmælanda Morgunblaðsins í dag 24. júní í frétt með yfirskriftinni „Girðing fyrir Kjalnesinga á teikniborðinu“.

Marta Guðjónsdóttir formaður Hverfisráðs Kjalarness staðhæfir að „allt skipulag varðandi vegarstæðið fyrir tvöföldun Vesturlandsvegar er tilbúið af hálfu borgarinnar, einnig staðsetning fyrir undirgöng og göngustíga að undirgöngunum.“ Og hún sakar Vegagerðina um að standa sig ekki í vinnu við gerð undirganga.

Allt er þetta alrangt utan að gróf staðsetning undirganga er að finna á aðalskipulagi. Ekki er gert ráð fyrir mislægum gatnamótum á núgildandi aðalskipulagi og því þarf að breyta skipulaginu áður en tvöföldun getur hafist, í fyrsta lagi. Í öðru lagi liggur ekki fyrir deiliskipulag þar sem fram kemur hvernig tengja ætti fyrirhuguð undirgöng gangstígum.

Vegagerðin hefur ekki viljað og má ekki gera undirgöng eða tvöfalda vegi án þess að fyrir liggi deiluskipulag. Vegagerðin hefur ekki haft áhuga á að byggja undirgöng sem síðar kæmi í ljós við tvöföldun vegarins að gögnuðust illa eða ekki. Hér stendur ekki á Vegagerðinni.

Undirbúningur, svokölluð frumdrög, fyrir breikkun Hringvegar á Kjalarnesi ásamt endurgerð gatnamóta, undirganga og fleiri atriða hófst fyrrihluta árs 2006 með samvinnu Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar. Þessi undirbúningsvinna er á lokastigi hjá Vegagerðinni.

Reykjavíkurborg dró sig út úr undirbúningi við skipulagsvinnuna fyrir áramótin 2009. Reykjavíkurborg á enn eftir að ganga frá öllum skipulagsatriðum sem snúa að breikkun Vesturlandsvegar, þar á meðal breytingar á aðalskipulagi og deiliskipulagi vegna undirganganna.

Hugmyndir um barnhelda girðingu sunnan vegar á móts við Grundarhverfi hafa ekki komið fram áður svo Vegagerðinni sé kunnugt um en þær eru nú til sameiginlegrar athugunar Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar. Undirbúningur að gerð undirganga er hafinn og stefnt að því að ljúka gerð þeirra í haust.