Fréttir
  • Prófun vegamálastjóra á rafknúnu hjóli

Sniglar í umferðaröryggisátaki

átak gegn skellinöðruslysum

9.6.2009

Bifhjólasamtök Lýðveldisins, Sniglar hafa ákveðið að blása til sérstaks forvarnardags með skellinöðrukrökkum á höfuðborgarsvæðinu þar sem ný slysaskýrsla leiðir í ljós að algengstu mótórhjólaslysin eru hjá yngra fólki á skellinöðrum. Vegagerðin hefur átt í samvinnu við Sniglana vegna umferðaröryggis. En ekki eingöngu ungt fólk notar skellinöðrur, hjá Vegagerðinni er rafskutla notuð til styttri ferða.

Fréttatilkynning Sniglanna vegna átaksins:

Átak Snigla gegn skellinöðruslysum

Bifhjólasamtök Lýðveldisins, Sniglar hafa ákveðið að blása til sérstaks forvarnardags með skellinöðrukrökkum á höfuðborgarsvæðinu.

Ástæðan er sú að samkvæmt nýútkominni slysaskýrslu hjúkrunarfræðinemanna Kristrúnar Guðmundsdóttir og Ragnheiðar Erlu Eiríksdóttir eru mótorhjólaslys algengust á skellinöðrukrökkum. Algengasti aldur ökumanna í mótorhjólaslysum er 15 ára en þar urðu 5,8% slysa á árunum 2003-2007. Fyrir 16 ára aldurinn var hlutfallið svipað eða 5,5% á sama árabili.

Mikil aukning hefur orðið á skellinöðrum og vespum í umferð á síðustu árum og eru þar á ferðinni ökutæki sem ekki mega ná meira en 45 km hraða, sem er helmingi lægri ökuhraði en mestur má vera hér á landi. Einnig eru kröfur til skellinöðruprófs of litlar og í rauninni barn síns tíma því ennþá er unnið samkvæmt kerfi sem sett var á kringum 1960.

Til að reyna að snúa þessari óheillavænlegu þróun við ætla Sniglar að taka þennan hóp í fóstur og fyrsta skrefið er svokallaður forvarnardagur sem fram fer 10. júní við húsnæði samtakanna í Skerjafirði, í gamla Skeljungsportinu.

Hefst dagskráin kl 19:00 og verður lögreglan og ökukennarar ásamt Sniglum á svæðinu til leiðbeiningar og er áherslan lögð á að fræða um öryggisbúnað og varnarakstur í umferð. Einnig verður Njáll Gunnlaugsson, ökukennari með sérstaka hjólafimikeppni fyrir þennan aldurhóp og verða veitt verðlaun fyrir besta árangurinn. Léttar veitingar verða einnig í boði Ó. Johnson og Kaaber.

Unglingar eru hvattir til að mæta á hjólunum sínum og taka mömmu eða pabba með, hvort sem að þau eru á mótorhjólum eða ekki.