Fréttir

Breikkun Suðurlandsvegar

fyrsti áfangi boðinn út á næstu mánuðum

25.3.2009

Samgönguráðherra og vegamálastjóri hafa samþykkt tilhögun áætlunar um tvöföldun Suðurlandsvegar. Leiðin milli Reykjavíkur og Selfoss yrði 2+2 vegur að undanteknum kafla í Svinahrauni og á Hellisheiði sem yrði 2+1 vegur. Fyrsti hluti verkefnisins verður boðinn út síðar á árinu.

Kristján L. Möller samgönguráðherra og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri kynntu fulltrúum nokkurra sveitarstjórna á Suðurlandi og Samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi tillögur og áætlanir um hvernig hagað verður tvöföldun Suðurlandsvegar. Meginhluti leiðarinnar verður 2+2 vegur en kaflinn milli Litlu kaffistofunnar og Kambabrúnar verður 2+1 vegur með aðskildum akstursstefnum þar sem vegbreidd er 15,5 metrar.

Þar sem Suðurlandsvegur er með 2+2 sniði verður þversnið hans breitt, með 11 metra miðjusvæði, sem er sams konar tilhögun og á Reykjanesbraut. Þar sem aðstæður eru þröngar, til dæmis á kafla við Rauðavatn, verður vegurinn með svokölluðu þröngu vegsniði, þ.e. með aðskildum akstursstefnum með víravegriði og 2+2 kafli um Kamba verður einnig með þeirri tilhögun.

2+1 kaflinn milli Litlu kaffistofunnar og Kambabrúnar verður með víravegriði en breiðari en núverandi 2+1 kafli í Svínahrauni. Einnig stendur til að breikka þann 2+1 kafla um einn og hálfan metra, úr 14 metrum í 15,5.

Heildarkostnaður við verkið er áætlaður kringum 15,9 milljarðar króna. Til ráðstöfunar á þessu ári verður kringum einn milljarður og verður fyrst boðinn út tvöföldun kaflans milli Lögbergsbrekku og Litlu kaffistofunnar og síðan kafli næst Vesturlandsvegi.

Meðalumferð á dag er misjöfn um hina ýmsu kafla Suðurlandsvegar og ræður hún meðal annars ákvörðun um útfærslu vegarins og hvort vegamót eru mislæg, á hringtorgi eða í plani. Umferð næst höfuðborginni er tæplega 13 þúsund bílar en er komin niður í um 8 þúsund bíla við Lögbergsbrekku. Á kaflanum milli Lögbergsbrekku og Kambabrúnar er meðal dagsumferðin um 6.500 bílar og um 7.300 milli Hveragerðis og Selfoss

Kynning á tilhöguninni við breikkun Suðurlandsvegar

Hér sést öll leiðin, 2+2 að Litlu kaffistofunni, 2+1 að Kömbum en þar verður 2+2 þröngt snið en 2+2 eftir Kambana á Selfoss og síðan nýr vegur og brú norðan við Selfoss:

Breikkun Suðurlandsvegar - skýringarmynd 1

Hér sést núverandi 2+1 kafli sem verður breikkaður um 1,5 metra en fyrsti áfangi verður vestan núverandi 2+1 kafla:

Breikkun Suðurlandsvegar - skýringarmynd 2

Notast verður við þröngt 2+2 snið framhjá Rauðavatni vegna aðstæðna þar:

Breikkun Suðurlandsvegar - skýringarmynd 3

Hér sést svo fyrsti áfangi sem boðinn verður út á næstu mánuðum, en kaflinn er litaður grænn og nær frá Lögbergsbrekkunni að Litlu kaffistofunni.

Breikkun Suðurlandsvegar - skýringarmynd 4