Fréttir
  • Á Melrakkasléttu

Ný vegaskrá í umræðunni

nokkurs misskilnings gætir

28.1.2009

Ný vegaskrá kom út í desember síðastliðnum, í fyrsta sinn eftir að ný vegalög tóku gildi 1. janúar 2008.

Samkvæmt lögunum færast um 200 km af vegum frá Vegagerðinni til sveitarfélaganna í landinu. Þar til samið hefur verið um þessa yfirfærslu við sveitarfélögin á hverjum stað sinnir Vegagerðin vegum með sama hætti og verið hefur.

Sá misskilningur varð uppi, vegna misstaka í útsendingu minnisblaðs frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, að verið væri að færa um 1000 km af vegum, héraðsvegum, yfir til sveitarfélaganna. Sú er ekki reyndin, Vegagerðin verður áfram veghaldari þessara vega.

Í mars árið 2007 voru sett ný vegalög sem tóku gildi 1. janúar 2008. Með samþykkt laganna ákvað Alþingi töluverðar breytingar á flokkun vega.

Eitt af því sem breyttist var að nú fækkar þjóðvegum í þéttbýli eða eins og segir í lögunum: “Þar sem stofnvegur endar í þéttbýli skal hann ná að fyrstu þvergötu sem tilheyrir gatnakerfi þéttbýlisins og enda þar” og “til stofnvega teljast einnig umferðarmestu vegir sem tengja saman sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu”. Samkvæmt vegalögunum ber svo Vegagerðinni að sjá “um gerð vegaskrár, sem er skrá yfir þjóðvegi” og var hún gefin út og birt á vef Vegagerðarinnar í desember síðastliðnum.

Framkvæmda- og eignaráð Reykjavíkurborgar átelur þessi vinnubrögð Vegagerðarinnar, skv. nýlegri frétt á mbl.is. Samkvæmt fréttinni telur “skrifstofustjóri hjá borginni að gangi hugmyndir Vegagerðarinnar eftir gæti árlegur kostnaður borgarinnar aukist um tugi milljóna”.

Hér er hlutunum snúið á haus því Vegagerðin gaf út vegaskrá samkvæmt lögum og hefur ekki velt neinum kostnaði yfir á sveitarfélögin. Um er að ræða ákvörðun Alþingis sem ákvað þessa skipan mála. Meðan ekki hefur verið samið um hvernig þessir vegir verði færðir í umsjá sveitarfélaganna helst ástandið óbreytt. Vegagerðin sinnir áfram þeim vegum sem hún hefur hingað til sinnt.

Önnur breyting sem varð með nýjum lögum er sú að nýr flokkur, héraðsvegir, kemur í stað safnvega og hluta tengivega sem áður var. Héraðsvegir eru um 1000 km lengri en safnvegirnir voru, þar sem hluti tengivega færist nú í þann flokk.. Héraðsvegir voru ekki færðir yfir til sveitarfélaga eins og sumir virðast halda, hinsvegar er Vegagerðinni “heimilt að fela sveitarfélagi veghald héraðsvega innan sveitarfélagsins, óski viðkomandi sveitarfélag eftir því.”