Fréttir
  • Á hringveginum

Ný vegaskrá

byggð á nýjum vegalögum sem tóku gildi 1. janúar

22.12.2008

Ný vegaskrá er nú komin út, sú fyrsta eftir að ný vegalög tóku gildi 1. janúar 2008.

Töluvert miklar breytingar hafa orðið á vegaskránni vegna nýju laganna. Nú er vegum landsins skipt upp í stofnvegi, tengivegi, héraðsvegi og landsvegi.

Vegaskráin er gerð á tvenns konar formi, annars vegar er öllum vegum skipt í kafla og hins vegar er leiðum þeirra lýst. Sú leiðarlýsing fylgdi áður vegáætlun. Héraðsvegir eru þó ekki í þeirri skrá.

Skrána má skoða á vefnum.

Í vegaskránni með leiðarlýsingum eru vegir flokkaðir í stofn- tengi- og landsvegi, með mismunandi lit.

Helstu breytingar frá fyrri vegalögum, hvað vegaskrá varðar, eru eftirfarandi:

Stofnvegir eru flestir þeir sömu og áður, að viðbættum nokkrum umferðarmiklum vegum, sem voru í flokki tengivega. Niður falla nokkrir vegkaflar í þéttbýli og teljast þeir nú til gatnakerfis þeirra. Hins vegar bætast í flokk stofnvega fjórar hálendisleiðir, sem hafa nokkra sérstöðu og verða í sérhópi um sinn, svokallaðir stofnvegir um hálendi.

Tengivegir eru færri en áður. Auk þeirra sem færast í flokk stofnvega verða margir þeirra héraðsvegir. Einnig fylla nú þennan flokk vegir innan þjóðgarða og vegir að fjölsóttum ferðamannastöðum, sem voru landsvegir.

Héraðsvegir hétu áður safnvegir, en auk þeirra fóru margir stuttir tengivegir í þennan flokk.

Landsvegir eru nú færri en áður. Þeir fá að jafnaði litla og árstíðabundna þjónustu og viðhald.