Fréttir
  • Jón Rögnvaldsson og Hreinn Haraldsson

Jón Rögnvaldsson gerður að heiðursmeðlim NVF

á stjórnarfundi Norræna vegasambandsins á Íslandi

15.12.2008

Yfirstjórn Norræna vegasambandsins hélt stjórnarfund sinn á Íslandi nýlega og við það tækifæri var Jón Rögnvaldsson fyrrverandi vegamálastjóri gerður að heiðursmeðlim í Norræna vegasambandinu.

Í yfirstjórn NVF (Norræna vegasamandið) sitja formenn, varaformenn og ritarar landsstjórna NVF. Formennirnir eru vegamálastjórar landanna og varaformenn eru oftast fulltrúar fyrirtækja úr einkageiranum. Ísland er leiðandi land í starfi NVF árin 2008 – 2012.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri stýrði því þessum fundi en auk hans sátu fundinn frá Íslandi þeir Ólafur Bjarnason frá Reykjavíkurborg, varaformaður íslensku stjórnarinnar, Þórir Ingason, ritari íslensku stjórnarinnar og aðalritari NVF og G.Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.

Jón Rögnvaldsson tók við skjali þess efnis að hann væri heiðursmeðlimur en hann er fimmti Íslendingurinn sem hlýtur þennan heiður, hinir eru Helgi Hallgrímsson (2003), Snæbjörn Jónasson (1992), Gústaf E. Pálsson (1973) og Geir Zoëga (1958).

Heiðursverðlaun NVF hafa svo hlotið þeir Rögnvaldur Jónsson (2007), Stefán Hermannsson (2004) og Ingi Ú Magnússon (1995).

Unnið er hörðum höndum að því innan NFV að halda ráðstefnu sambandsins árið 2012 en hún verður í fyrsta sinn haldin hér á Íslandi. Um stóra ráðstefnu er að ræða sem haldin er á fjögurra ára fresti, en búast má við að 12 - 1500 manns sæki ráðstefnuna. Miðað er við að hún verði haldin í nýja Tónlistar- og ráðstefnuhúsinu. 

Tveir fyrrverandi vegamálastjórar, þeir Jón Rögnvaldsson og Helgi Hallgrímsson, báðir heiðursmeðlimir:

JonOgHelgi

 

Stjórn NVF fundar í Reykjavík:

StjornNVF