Fréttir
  • Hringvegur um Hornafjarðarfljót

Tveir dómar, báðir Vegagerðinni í hag

um veg um Hornafjarðarfljót og um land í Norðlingaholti

12.11.2008

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær í máli fjölda einstaklinga gegn íslenska ríkinu og Vegagerðinni þar sem þess var krafist að metnir yrðu fleiri kostir við vegalanginu í mati á umhverfisáhrifum en Vegagerðin mælti með. Vegalagningin er á Hringvegi um Hornafjarðarfljót með nýrri brú yfir fljótið. Héraðsdómur sýknaði ríkið og Vegagerðina og er það mat dómsins að "Vegagerðin, hafi forræði á að meta hvaða kostir þjóni því markmið sem að er stefnt með veglagningu þeirri sem mál þetta snýst um".

Í niðurstöðu dómsins segir ennfremur: "Stefnda, Vegagerðin, skilgreinir tilgang og markmið framkvæmda hverju sinni og ber ábyrgð á að framfylgja stefnu og markmiðum í samgöngumálum. Af tillögu að matsáætlun verður glögglega ráðið hvers vegna stefnda hefur valið þær þrjár leiðir sem hún lagði fram til skoðunar á mati á umhverfisáhrifum og hafnaði öðrum kostum. Það er skylda stefndu að skilgreina hvaða leiðir teljist færar með hliðsjón af markmiðum framkvæmda en ekki er unnt að skylda stefndu til að meta umhverfisáhrif framkvæmdakosta sem stríða gegn þeim markmiðum sem stefndu ber að vinna að. Það er álit dómsins með hliðsjón af framangreindu, að ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi til kynna að val stefndu hafi ekki verið byggt á málefnalegum sjónarmiðum."

Dómur Héraðsdóms

Í hinu málinu dæmdi Hæstaréttur á mánudag í máli Reykjavíkurborgar og Rauðhóls ehf gegn Vegagerðinni þar sem krafist var skaðabóta vegna veghelgunarsvæðis við Norðlingaholt. Hæstiréttur staðfesti frávísunardóm Héraðsdóms þar sem "skorti verulega á skýrleika í málatilbúnaði sóknaraðila".

Dómur Hæstaréttar