Fréttir
  • Fyrsta sprengingin í Bolungarvíkurgöngum

Fyrsta sprengingin í Bolungarvíkurgöngum

samgönguráðherra kveikti í þræðinum

4.9.2008

Samgönguráðherra Kristján L. Möller sprengdi fyrstu sprenginguna í Bolungarvíkurgöngum síðdegis 4. september að viðstöddu fjölmenni. Sprengingin tókst vel en sprengt var í þessari fyrstu sprengingu rúma tvö metra inn í fjallið Bolungarvíkurmegin.

Unnið hefur verið að forskeringum beggja vegna í sumar en í næstu viku hefst sprengivinna Hnífsdalsmegin. Búast má við að eftir u.þ.b. ár verði sprengivinnu lokið og að sumarið 2010 verði hægt að opna fyrir umferð en verklok eru áætluð 15. júlí.

ÍAV og Marti Contractors Ltd áttu lægsta tilboðið í Bolungarvíkurgöng um 3,5 milljarða króna en áætlaður verktakakostnaður var tæpir 4 milljarðar króna og var heildarkostnaður áætlaður um 5 milljarðar króna. Um er að ræða 8,7 m breið, 5,1 km löng jarðgöng, byggingu um 270 m langra steinsteyptra vegskála, gerð um 3,7 km langra vega og byggingu tveggja brúa.