Fréttir
  • Göng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar

Jarðgöng á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar

Drög að tillögu að matsáætlun

7.8.2008

Fyrirhuguð er lagning nýs vegar og nýrra ganga á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar á Vestfjörðum. Vinnuheiti þessarar framkvæmdar er: Jarðgöng á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar.

Kannaðar hafa verið jarðfræðilegar aðstæður til gangagerðar á milli Dýrafjarðar og Borgarfjarðar í Arnarfirði. Einungis ein leið er talin koma til greina. Vegstæðið nær frá Mjólká í Arnarfirði að Dýrafjarðarbrú.

Nýlögn vegar verður 8,1 km en göngin verða 5,6 km og vegstæðið því samtals 13,7 km langt með göngum. Stytting á Vestfjarðarvegi verður 27,4 km.

Áætlaður framkvæmdartími er um þrjú ár. Áætlun um upphaf framkvæmda liggur ekki fyrir en gert er ráð fyrir að það geti orðið í árslok 2009.

Tilgangur framkvæmdarinnar er að tryggja góðar og öruggar samgöngur á Vestfjarðavegi nr. 60 á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Það er skilyrði þess að heilsárs vegarsamband sé á milli Barðastrandarsýslna og Ísafjarðarsýslna.

Núverandi vegur er óviðunandi bæði vegtæknilega og með tilliti til umferðaröryggis. Hann er ófær stóran hluta af vetrinum og einnig er mikil snjóflóðahætta á Hrafnseyrarheiði.

Fyrirhugað framkvæmdarsvæði er á náttúruminjaskrá.

Í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar verður meðal annars fjallað um áhrif framvæmdarinnar á; samgöngur og samfélag, náttúrufar, fornminjar og landslag.

Náttúrustofa Vestfjarða hefur kannað fuglalíf, gróður og fornleifar á svæðinu og eru þær athuganir í sérstökum skýrslum. Gerð verður grein fyrir þeim í frummatsskýrslu.

Landsnet hefur óskað eftir því við Vegagerðina að gert sé ráð fyrir í hönnun jarðganganna að hægt verði leggja jarðstreng í göngin. Vegagerðin hefur tekið vel í þessa umleitan.

Ísafjarðarbær mun kynna landeigendum veglínuna samhliða annarri kynningu á skipulagi á svæðinu.

Drög að tillögu að matsáætlun