Fréttir
  • konnun2008

Flutningsaðilar ánægðari með vegakerfið

22.7.2008

Ánægja flutningsaðila með vegakerfið hefur aukist merkjanlega í nýrri viðhorfskönnun frá síðustu könnun sem gerð var í fyrra. Þeim fækkar sem eru óánægðir með vegakerfið, eigi að síður er þó rúmlega helmingur aðspurðra óánægður eða mjög óánægður með þennan þátt.

Líkt og í fyrri könnunum er borið við að vegirnir séu of mjóir og veikbyggðir fyrir stóra bíla, einkum vegna síaukinnar umferðar.

Ríflega þrír af hverjum fjórum verktökum er ánægður með samskiptin við starfsmenn Vegagerðarinnar en fleiri en áður gera athugasemdir við útboðsgögn.

Eldri kannanir má finna á vefnum.

Í könnuninni í fyrra voru aðeins 8 prósent flutningsaðila ánægðir með vegakerfið en nú eru þeir 24 prósent. Svarendur töluðu meðal annars um að framfarir væru gríðarlegar, en það mætti vera meira viðhald, vegakerfið væri of mjótt, þetta færi þó að lagast þótt malarvegir væru hryllilegir og malbik víða sigið. Einn sagði þjóðveg eitt meira og minna handónýtan og stórhættulegan.  

Þá voru flutnignsaðilar heldur ánægðari með merkingar og einnig voru nokkuð fleiri ánægðir með þjónustu Vegagerðarinnar þ.e.a.s. snjómokstur, jhálkuvarnir, heflun og vinnustaðamerkingar, en á sama tíma voru hldur fleiri en í fyrra með slæma reynslu af þessu. Þeim fækkaði verulega sem höfðu hvorki góða né slæma reynslu.

Hjá verktökum voru heldur fleiri ánægðir með gæðakröfur og úttektir í sambandi við verkframkvæmdir en þeir voru líka fleiri sem voru óánægðir með þennan þátt, svo dæmi sé tekin.

 

Viðhorfskönnun fyrir Vegagerðina – flutningsaðilar og verktakar – er unnin af Lausnum