Fréttir
  • Axarvegur - Yfirlitsmynd

Axarvegur (939), Hringvegur (1) í Skriðdal og Hringvegur (1) um Berufjarðarbotn

Drög að tillögu að matsáætlun

18.6.2008

Í janúar 2008 kynnti Vegagerðin drög að tillögu að matsáætlun, vegna fyrirhugaðra vegaframkvæmda á Axarvegi milli Hringvegar í Skriðdal og Hringvegar í Berufirði. Við frekari undirbúning framkvæmdarinnar var ákveðið að meta saman umhverfisáhrif Axarvegar, Hringvegar í Skriðdal og Hringvegar um botn Berufjarðar. Ákvörðunin var tekin í samráði við Skipulagsstofnun.

Vegagerðin auglýsir hér með drög að tillögu að matsáætlun vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Hringvegi í Skriðdal, Axarvegi og Hringvegi um Berufjarðarbotn í Fljótsdalshéraði og Djúpavogshreppi. Fyrirhugað er að endurbyggja Hringveg í Skriðdal á 6 km löngum kafla, byggja 19-21 km langan nýjan veg yfir Öxi milli Hringvegar í Skriðdal og Hringvegar í Berufirði, endurbyggja og byggja nýjan Hringveg um botn Berufjarðar á 7 km löngum kafla og byggja nýja brú yfir Berufjarðará.

Tilgangur framkvæmdarinnar er að bæta samgöngur á Austurlandi, auka umferðaröryggi og draga úr slysahættu. Framkvæmd á Axarvegi er samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar í júlí 2007 sem mótvægisaðgerð vegna skerðingar á þorskkvóta og eru fjárveitingar til framkvæmda á árunum 2009-2011.

Almenningur getur gert athugasemdir við áætlunina og er athugasemdafrestur í 2 vikur eða til 7. júlí 2008. Athugasemdir er hægt að senda með tölvupósti til helga.adalgeirsdottir@vegagerdin.is eða senda til Vegagerðarinnar, Miðhúsavegi 1, 600 Akureyri.

Axarvegur - Drög að tillögu að matsáætlun (PDF 5,7 MB)