Fréttir
  • Hdagur

H-dagurinn 40 ára, sýning hjá Vegagerðinni

Áður ósýndar myndir frá því í maí 1968 frumsýndar

26.5.2008

Jakob Hálfdánarson minjavörður hjá Vegagerðinni frumsýndi áður ósýndar myndir frá árinu 1968 við opnun sýningar í húsakynnum Vegagerðarinnar í tilefni 40 ára afmælis H-dagsins.

Þennan dag fyrir 40 árum var skipt úr vinstri umferð í hægri umferð. Sú framkvæmd heppnaðist svo vel að hún féll nánast í gleymsku fyrir vikið, en á það benti Jón Birgir Jónsson við opnun sýningarinnar en hann kom að þessum viðmiklu breytingum fyrir hönd Vegagerðarinnar fyrir 40 árum. Þau voru ansi mörg skiltin sem þurfti að færa nóttina fyrir 26. maí 1968.

Á sýningunni sem er á stigagangi Borgartúns 7 má m.a. sjá myndina. Hún er tekin á nokkrum stöðum með sama sjónarhorn í vinstri og hægri umferð árið 1968 og sama sjónarhorn í dag. Sýningin verður opin til áramóta. Almenningur er hvattur til að kynna sér þessa sýningu og þá sérstaklega þessar gömlu myndir sem eru ólíkar fréttatökum Sjónvarpsins frá þessum tíma að því leiti að þær eru allar í lit. Jakob sem tók myndirnar benti einnig á við opnuna að það væru eiginlega meiri munur á trjágróðrinum en á götunum. Og það er áberandi reginmunur á trjám á þessum tímabilum.

Jón Birgir lýsti aðdraganda verkefnisins, meðal annars því að deilur stóðu um málið framan af en þegar að Svíar skiptu yfir árið 1967 var fljótlega ákveðið að fara sömu leið. Jón Birgir:

"H – verkefnið var mjög spennandi þó það væri í raun ekki stórt verkefni. Mörg önnur verkefni sem Vegagerðin var að vinna að á þessum tíma voru bæði stærri og tæknilega meira spennandi að vinna að eins og t.d.:

· Að leggja bundið slitlag austur fyrir fjall

· Bygging brúa yfir stærstu jökulfljót okkar t.d. Jökulsá á Breiðamerkursandi ofl

· Um þetta leiti var farið að hugsa í alvöru um að ljúka hringveginum og byggja brú yfir Skeiðará

· Jarðgöng um Stráka og Oddskarðsgöng sem þá þóttu stórverkefni þó þau séu ekki stór miðað við þau jarðgöng sem eru gerð í dag

en H – verkefnið fékk strax þjóðarathygli og allir fylgdust með því og auðvitað varð Vegagerðin að standa í stykkinu því margir voru hræddir um að eitthvað færi úrskeiðis og slysum myndu fjölga.

Sumt af því sem þurfti að gera fyrir H – dag mátti gera sumarið áður, nokkuð á síðustu mánuðum áður en H – dagur rann upp og loks það sem varð að gera í síðustu viku og endanlega það sem varð að gera um nóttina þegar lokað var fyrir alla umferð í nokkra tíma aðfaranótt H – dagsins.

Sennilega væri unnt að fara mörgum orðum um þetta verkefni en þetta var allt vel undirbúið og margar hendur stóðu að þessu og má segja að allt hafi gengið vel upp. Þegar engin óhöpp verða og allt gengur vel bæði tæknilega og framkvæmdalega, tímaáætlanir standa og kostnaðaráætlanir einnig þá vill það gleymast sem vel fer því oft situr betur í manni það sem aflaga hefur farið því þá er maður oft að hugsa um það sem betur hefði mátt fara.

Allt gekk vel, allir ánægðir og þá snýr maður sér að öðrum verkefnum sem nóg var af á þeim tíma og eru enn til til staðar fyrir þá sem vinna að Vegagerð."