Fréttir
  • Frá Reykjanesbraut

Akstursstefnur aðskildar

Rauðir og hvítir gátskildir settir upp

9.4.2008

Vegagerðin hefur ákveðið að aðskilja aksturstefnur í framhjáhlaupum á Reykjanesbrautinni á framkvæmdasvæðinu, það verk mun hefjast á allra næstu dögum. Fyrir helgina verða sett upp stærri skilti með aðvörunum um að ekið sé á tvístefnuakbraut.

Tilboð í áframhaldandi vinnu við tvöföldunina voru opnuð í gær. Nú þegar hefst athugun á og viðræður við lægstbjóðanda sem er Adakris uab og Toppverktakar ehf.

Fréttatilkynning sem send var í dag um málið:

Frá því að Jarðvélar ehf sögðu sig frá tvöföldun Reykjanesbrautarinnar í desember síðastliðnum hefur Vegagerðin unnið að því að bæta merkingar og auka umferðaröryggi við framhjáhlaup á framkvæmdasvæðinu.

Þrátt fyrir verulegar merkingar á svæðinu hefur Vegagerðin nú ákveðið að aðskilja aksturstefnurnar með föstum rauðum og hvítum gátskiltum á milli akreina. Þetta verður gert á allra næstu dögum. Einnig mun strax fyrir helgina verða bætt við stærri skiltum til að vekja aukna athygli á því að ekið sé á tvístefnuakreinum.

Þetta hefur þá í för með sér að á löngum kafla mun framúrakstur ekki vera mögulegur, vegfarendur verða einnig að vera viðbúnir því að með tilkomu gátskiltanna á miðju vegarins mun ökuhraði líklega minnka og ferðatími lengjast.

Fáar framkvæmdir hafa fengið jafn mikla athygli og þessi undanfarna mánuði. Vegagerðin hefur ítrekað varað vegfarendur við hættunni sem stafar af framkvæmdunum og framhjáhlaupunum.

Ekki stóð til að framhjáhlaupin yrðu opin þetta lengi og heldur ekki að þau væru svona mörg opin í einu en verktakinn stóð ekki við kröfur Vegagerðarinnar í þessum efnum. Tíðarfarið í vetur hefur heldur ekki hjálpað til.

Aðstæður þarna eru afar óvenjulegar og endurtaka sig vonandi ekki aftur. Vegagerðin mun eigi að síður taka til skoðunar að nauðsynlegt getur reynst að aðskilja aksturstefnur algerlega í öllum framhjáhlaupum.

Í gær voru opnuð tilboð í þá vinnu sem eftir er og hefst þegar athugun á og viðræður við lægstbjóðanda Adakris uab.og Toppverktaka ehf sem munu taka 2-3 vikur. Framkæmdir ættu að geta haldið áfram fljótlega eftir það.

Vegagerðin ítrekar þau tilmæli til vegfarenda að aka varlega á framkvæmdasvæðum og aka ætíð í samræmi við aðstæður.