Fréttir
  • Vetrarráðstefna 2008

Vetur 2008 sett á Akureyri

Um 200 manns á þriðju vetrarráðstefnu Vegagerðarinnar

2.4.2008

Samgönguráðherra Kristján L. Möller setti þriðju vetrarráðstefnu Vegagerðarinnar, Vetur 2008, á Akureyri í dag 2. apríl. Ráðstefnan stendur til 4. apríl og eru haldin fjölda erinda. (Sjá fleiri myndir frá ráðstefnunni neðsti á síðunni.)

Horft er til framtíðar á ráðstefnunni, hvert skuli stefna þegar kemur að því að þjónusta vegakerfið á veturnar. Kröfur vegfarenda eru um ekki eingöngu að vegir séu alltaf ruddir og færir heldur líka að þeir séu hálkuvarðir.

Á síðastliðnum 30 árum hefur þjónustan sjöfaldast meðan að fjármagn til hennar hefur ekki nema um það bil tvöfaldast. Ekki eru ýkjamörg ár síðan að mokstursdögum á Holtavörðuheiði var fjölgað úr 2 í 3, en það var árið 1991, líkt og ráðherra benti á þegar hann setti ráðstefnuna í Sjallanum.

Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri kom einnig inn á þetta í ávarpi sínu, og fór yfir hve miklar breytingar hefðu átt sér stað frá árinu 1977 eða á 30 árum þegar algengt var að heiðar á hringvegi væru lokaðar 10 - 20 daga á ári en í fyrra var engin slík heiði lokuð í heilan dag.

Björn Ólafsson forstöðumaður þjónustudeildar Vegagerðarinnnar horfði til fram og sagði meðal annars:

Með bættum efnahag þjóðarinnar og betri vegum hefur almenn umferð stóraukist, umferðarhraði hækkað og á sama tíma hefur hlutfall þungra ökutækja á vegakerfinu farið ört vaxandi eftir að reglubundnar strandsiglingar lögðust af.

Ferðavenjur einstaklinga hafa einnig breyst á þann veg að akstur á þjóðvegum að vetrarlagi þykir ekki lengur tiltökumál og hlutfall ökumanna, sem óvanir eru vetrarakstri, hækkar stöðugt. Með breyttum atvinnuháttum, þ.e. með samþjöppun atvinnutækifæra, samþjöppun skólahalds o.s.frv., sækir fólk úr dreifbýlinu í auknum mæli vinnu sína eða nám til þéttbýliskjarnanna.

Allt þetta þýðir auknar kröfur um bætt vegástand á vegum sem fram til þessa hafa haft takmarkaða þjónustu að vetrarlagi. Samfara kröfum um aukna þjónustu er krafa samfélagsins og hins opinbera um að umferðaröryggi skuli vera eins og það sem best verður á kosið.

Í hnotskurn þýðir þetta að á næstu árum blasir við eftirfarandi:

· Gera verður ráð fyrir því að allir vegir sem falla undir núverandi reglur njóti fullrar þjónustu alla daga og í flestum tilfellum allan sólarhringinn og við bætist að veita þarf fullnægjandi þjónustu alla daga eða alla vinnudaga á þeim leiðum sem á einhvern hátt tengjast atvinnulífi landsins.

· Stytta þarf viðbragðs- og aðgerðatíma sem þýðir að gera verður auknar kröfur um markvisst skipulag og betri afköst

· Ná þarf fram háu gæðastigi hvað varðar sléttleika yfirborðs og viðnám til að tryggja sem best umferðaröryggi og akstursþægindi við vetrarakstur

Með tilliti til umferðaröryggis þarf að búa sig undir stórauknar kröfur vegfarenda um gott aðgengi að fjölþættum ferðaupplýsingum, bæði hvað varðar veður, veðurspár, færðarástand, ferðaleiðsögu, umferðarástand, viðvaranir o.fl

Vetrarradstefna4

Vetrarradstefna5

 Vetrarradstefna7

 

Vetrarradstefna11

Vetrarradstefna13

Vetrarradstefna19

Jón Rögnvaldsson, vegamálastjóri

Vetrarradstefna22

Björn Ólafsson, forstöðumaður þjónustusviðs Vegagerðarinnar

Vetrarradstefna16

Kristján L. Möller samgönguráðherra