Fréttir

Ráðstefna um snjóflóðavarnir, skipulagsmál og samfélagsmál

Megin þemu þessarar ráðstefnu eru þrjú; snjóflóðavarnir, umhverfi og samfélag.

11.2.2008

Verkfræðingafélag Íslands og Tæknifræðingafélag Íslands í samstarfi við Umhverfisráðuneytið, Vegagerðina, Veðurstofu Íslands, Skipulagsstofnun, Landsnet og Samband íslenskra sveitarfélaga munu standa fyrir alþjóðlegri ráðstefnu á Egilsstöðum dagana 11. -14. mars n.k. um málefni snjóflóðavarna, mannvirkjagerðar, umhverfis og samfélags.

Enskt heiti ráðstefnunnar er: International Symposium on Mitigative Measures against Snow Avalanches. Skipuleggjendur ráðstefnunnar hafa fengið til liðs við sig Norges Geotekniske Institutt (NGI) í Ósló og Wildbach und Lawinen Verbauung í Innsbruck (WLV).

Þessir tveir aðilar hafa komið að mörgum snjóflóðaverkefnum hér á landi á undanförnum árum. Þá er International Glaciologial Society (IGS) á Englandi sérstakur stuðningsaðili ráðstefnunnar en þau félagasamtök eru mjög virt á þessu sviði í heiminum í dag.

Frá því að mannskæðar snjóflóðahrinur gengu yfir landið árið 1995 hefur áhersla verið lögð á rannsóknir og þróun á sviði snjóflóðamála og markvissar aðgerðir til þess að draga úr snjóflóðahættu. Aðgerðirnar hafa falist í hættumati, uppbyggingu varnarvirkja og flutningi byggðar af ákveðnum hættusvæðum þar sem erfitt er að koma við vörnum. Eftir þessu hefur verið tekið víða um lönd.

Snjóflóðavarnir, þá sérstaklega þau umfangsmiklu mannvirki sem byggð hafa verið, hafa verið mikið í umræðunni en minna hefur borið á umfjöllun um umhverfi, skipulag og um samfélagslega þætti sem þessi mannvirki hafa áhrif á.

Mat á umhverfis-áhrifum tekur á sumum þessara þátta en ekki hefur farið fram þverfagleg umræða um þetta málefni þar sem ólík sjónarhorn eru kynnt eða krufin til mergjar.

Megin þemu þessarar ráðstefnu eru þrjú; snjóflóðavarnir, umhverfi og samfélag.

Markmið ráðstefnunnar er að vera vettvangur skoðanaskipta vísindamanna, ráðgjafa og annarra sem starfa að þessum málum.