Fréttir
  • Ráðherra í Sæfara

Sæfari kominn til Akureyrar

ferðin gekk vel þótt einungis væri siglt á annarri vélinni

15.1.2008

Ferð Grímseyjarferjunnar Sæfara úr Hafnarfjarðarhöfn til Akureyrar gekk vel þrátt fyrir að einungis væri notast við aðra vélin. Fljótlega eftir að sigling hófst kom í ljós að lega á ás frá annarri vélinni kældist illa og var ákveðið að sigla á hinni vélinni. Sigla hefði mátt með báðar vélar í gangi ef þörf hefði verið fyrir það enda vélin í lagi en kælingin á leguna í ólagi. Farið var úr Hafnarfjarðarhöfn ríflega fimm á laugardag en komið til Akureyrar tæpum tveimur sólarhringum síðar.

Að sögn skipstjórans í ferðinni gekk ferðin mjög vel að öðru leiti, skipið telur hann nokkuð betra sjóskip en áður en bæði skipstjóri og stýrimaður höfðu siglt ferjunni frá Írlandi á sínum tíma. Skipstjórinn var Jón Halldór Gunnarsson og stýrimaður var Randver Sigurðsson. Báðir eru þeir starfsmenn Vegagerðarinnar en vanir siglingum. Þess vegna höfðu þeir einnig verið fengnir til að sigla ferjunni frá Írlandi.  

Lokaendurbætur taka nú við í Slippnum Akureyri og mun þeim ljúka á næstu 3-4 vikum. En líkt og fram hefur komið verður settur nýr inngangur á ferjuna auk samsvarandi neyðarútgangs á bakborðssíðu, kælingu verður komið fyrir í efri flutningalest, skipt verður út 22 fermetrum af stáli í byrðingi auk fleiri smáverka. Slippurinn Akurreyri átti lægsta tilboðið í þessi verk og hljóðaði það uppá 13 milljónir króna.