Fréttir
  • Framkvæmdastjóri Umhyggju tekur við styrknum

Umhyggja fær 100 þúsund krónur

Starfsmenn þróunarsviðs Vegagerðarinnar gefa vinning

17.12.2007

Á árlegum jólafundi þróunarsviðs Vegagerðarinnar færðu starfsmenn sviðsins Umhyggju, sem er félag til stuðnings langveikum börnum, 100 þúsund krónur. Þróunarsviðið hafði fengið þær krónur í vinning vegna góðrar þátttöku í vinnustaðagreiningu hjá Vegagerðinni.

Það var Ragna K. Marínósdóttir framkvæmdastjóri Umhyggju sem tók við fénu úr höndum hluta starfsmanna þróunarsviðs. Svarhlutfall hjá þróunarsviði var 100 prósent í vinnnustaðagreiningu sem Capacent Gallup vann fyrir Vegagerðina. Til að bæta svarhlutfallið í þeim tilgangi að greiningin nýttist betur ákvað Vegagerðin að verðlauna þau svið eða svæði sem stæðu sig best. Stjórnsýslusvið skilaði einnig 100 prósent svarhlutfalli og munu starfsmenn ráðstafa sínum 100 þúsund krónum á svipaðan hátt. En það er Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna sem nýtur þeirra stuðnings.

Umhyggja er félag sem vinnur að bættum hag sjúkra barna og fjölskyldna þeirra. Í félaginu starfa foreldrar langveikra barna og fagfólk innan heilbrigðiskerfisins. Einnig eru félög og hópar foreldra langveikra barna í félaginu.

Helstu stefnumál Umhyggju eru m.a.:
að veita upplýsingar um þarfir langveikra barna
að benda stjórnvöldum á þessar þarfir
að hvetja þau til úrbóta á aðbúnaði veikra barna
að efla samvinnu innlendra og erlendra félaga sem hafa sambærilega stefnu