Fréttir
  • Gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar - Lausn með brú

Greið umferð – örugg umferð

um mislæg gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar

13.12.2007

Það eru til einfaldar lausnir til að leysa vanda í umferðinni og það eru til flóknar lausnir. Yfirleitt vita menn hvar vandamálin eru en sjá ekki alltaf lausnirnar í hendi sér.

Eitt vandamál í Reykjavík er tiltölulega auðvelt að leysa en það er stíflan sem myndast við gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar.

Sjónarmið greiðrar umferðar og jafnvel sjónarmið öruggrar umferðar er samt ekki það eina sem taka þarf tillit til. Í auknum mæli er nauðsynlegt að taka tillit til náttúrunnar og ekki síður íbúanna. Í fljótu bragði virðist það auðvelt í þessu tilviki.

Lagðar hafa verið fram tvær tillögur um mislæg gatnamót á mótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar. Hvorug felur í sér mikið inngrip í náttúruna. Önnur kallar á lítillega tilfærslu kvíslar í Elliðaánum, hin takmarkar eilítið útsýni til Esjunnar frá nokkrum húsum. Lausnirnar má sjá á meðfylgjandi myndum.

Vegagerðin telur nauðsynlegt að bæta flæði umferðar á þessum gatnamótum með mislægum gatnamótum. Það minnkar ekki einungis ferðatíma innan borgarinnar heldur eykur einnig umferðaröryggi.

Þá má benda á að með því að minnka biðtíma við ljós dregur úr útblæstri frá bifreiðum og þar með mengun. Einnig má líta á það sem ljósan punkt við þá leið að byggja undirgöng og færa kvísl Elliðaánna að þá færist um leið göngustígurinn fjær mestu umferðinni. Það yrði til bóta fyrir göngufólk.

Kostir þessara lausna er bætt og greiðari umferð, aukið umferðaröryggi og minni mengun. Ókostur þess að byggja þó þessa nettu brú er sjónmengun sem takmarkar lítillega útsýni til Esjunnar. Undirgöngin leiða ekki af sér sjónmengun en þá er nauðsynlegt að færa Elliðaárkvíslina. Það hefur þó það í för með sér að um leið færist göngustígurinn austur fyrir kvíslina fjær umferðinni.

Hægt er að koma með nýjar útfærslur á þessum tveimur lausnum sem minnka enn ókosti þeirra en hvort sem það verður gert eða ekki þá eru ókostirnir hverfandi miðað við greiðari og öruggari umferð og því nauðsynlegt að taka afstöðu til lausnanna.

Lausn með undirgöngum:

Bustadavegur_Reykjanesbraut_undirgong

 

Lausn með brú:

Bustadavegur_Reykjanesbraut_bru