Fréttir
  • Frá uppsetningu vegriðs á 2+1 veginum í Svínahrauni

Ótti við 2+1 veg ástæðulaus

vegna fréttar í 24 stundum fimmtudaginn 15. nóvember

19.11.2007

Ótti við 2+1 veg ástæðulaus 2+1 vegur með aðskildum akstursstefnum er með öruggustum vegum sem byggðir eru og algjörlega ástæðulaust að óttast slíkan veg. Einungis 2+2 vegur með vegriðum beggja vegna er öruggari samkvæmt rannsóknum sænsku vegagerðarinnar.

24 stundir halda því fram í blaðinu á fimmtudag að Norðmenn séu hræddir við 2+1 veg. Þar er sagt frá slysi þar sem bílar sem komu úr gagnstæðum áttum skullu saman. Það segir sig sjálft að þegar það gerist eru akreinarnar augljóslega ekki aðskildar með vegriðum. Þeir 2+1 vegir sem rætt er um á Íslandi eru með vegrið á milli akreina. Í því liggur öryggið fyrst og fremst.

Samkvæmt því sem Svíar hafa komist að þá eru 2+2 vegir með vegriðum beggja vegna öruggastir, (ökuhraði 110 km), næst öruggastir eru 2+1 vegir með aðskildum akstursstefnum, (ökuhraði 90 km) líkt og í Svínahrauninu og 2+2 vegir með breiðu öryggissvæði á milli akbrauta líkt og á Reykjanesbrautinni en með 110 km hámarkshraða. Í öllum tilvikum eru akstursstefnur aðskildar annaðhvort með öryggissvæði á milli akreina eða með vegriðum nema hvorttveggja sé.

Það verður að teljast ákaflega óábyrgt af 24 stundum að birta með fréttinni um ótta Norðmanna við 2+1 veg -- sem er á engan hátt sambærilegur því sem rætt er um á Íslandi -- mynd af klesstum bíl og setja yfir hana þessa spurningu: “Er 2+1 örugg lausn?” Það þarf varla að minnast á epli og appelsínur í því sambandi.

Tekin hefur verið ákvörðun um að tvöfalda Suðurlandsveg og Vesturlandsveg og er unnið að því verkefni af fullum krafti innan Vegagerðarinnar. Það er því engin ástæða fyrir 24 stundir að óttast 2+1 veg á þeim kafla. Sú lausn mun þó áfram verða í umræðunni á öðrum vegköflum en þeim sem hér eru til umræðu. Þá, eins og alltaf, er mikilvægt að horfa til umferðaröryggis.

Rannsókn sænsku vegagerðarinnar:

 

Gerð vegar

Hraði

tíðni slysa*

2+2 mjög góður vegrið beggja vegna og bil milli akbrauta

110

0,015

2+2 venjulegur (Reykjanesbraut)

110

0,019-0,021

2+1 aðskildar akstursstefnur með vegriði

90

0,019

2 akreinar 13 m breiður vegur, (hringvegurinn  íslenski er  6,5 til 8,5 m)

 

90

 

0,047*Tíðni slysa: Banaslys og slys þar sem fólk slasast alvarlega

 

Sent 24 stundum 16. nóvember.