Fréttir
  • Frá íslenska básnum á PIARC

Framtíðin felst í aukinni þjónustu

-- öflun samtíma upplýsinga um vegina mikilvæg

28.9.2007

Til Vegagerðarinnar berast á hverri stundu gífurlegt magn upplýsinga um vegakerfið. Mældur er umferðarþunginn á fjölmörgum stöðum um land allt, veðurupplýsingar berast frá mörgum tugum veðurstöðva, mælar liggja víða í vegum sem mæla frost og raka og svo mætti lengi telja.

Á PIARC ráðstefnunni í París sýndi Vegagerðin ásamt verkfræðistofunum Samrás og Samsýn og ND á Íslandi eina framtíðarsýn í þessum efnum. Með aukinni notkun leiðsögukerfa í bílum og nýrri tækni verður auðveldara að koma upplýsingum til vegfarenda meðan þeir eru á ferðinni. Einnig horfir Vegagerðin til þess að geta spáð fyrir um þungatakmarkanir á vegi. Markmiðið er að með samspili upplýsinga frá frostmælum í vegum og veðurspá munu flutningsaðilar geta skipulagt ferðir sínar með meiri fyrirvara um þungatakmarkanir en nú er hægt.

Eins og sjá má á myndunum hér fyrir neðan þá safnar Vegagerðin miklu magni upplýsinga með myndavélum, veðurstöðvum, könnun vegagerðarmanna á svæðunum, með frostmælum, með umferðarmælum og fleiru. Þannig eru til margháttaðar upplýsingar um umferðarþunga, umferðarhraða, hálku, hálkubletti, forst í vegi og svo framvegis.

Þessum upplýsingum ásamt upplýsingum um framkvæmdir, slys, hraða, hættulega staði, áhugaverða staði, þungatakmarkanir og svo framvegis má koma til vegfarenda í auknum mæli í framtíðinni í gegnum leiðsögukerfi og auðvelda mönnum þannig að komast leiðar sinnar. Velja aðra leið en ella, eða einfaldlega hætt við ferð vegna ástandsins.

Allar þessar upplýsingar eiga þannig að geta hjálpað vegfarendum á leið sinni og draga úr slysahættu. 

Á neðri myndinni má svo sjá hvernig upplýsingakerfi sem þetta getur tengst ökuritum og góðakstri. Flutningsaðilar fá í sífellu upplýsingar um flutningabíla, staðsetningu og svo framvegis og þess vegna hraða og þunga. Þá fær bílstjórinn einnig upplýsingar um vegakerfið, um umferð, þungatakmarkanir eða slys og getur hagað áætlun sinni í samræmi við það.  


PiarcGraf_Page_1
PiarcGraf_Page_2