Fréttir
  • merking bíla 1

Vel merktir Vegagerðarmenn

merkingar einkabíla í þjónustu fyrir Vegagerðina

12.9.2007

Það er mikilvægt fyrir þá sem vinna á vegum úti að þeir sjáist vel og það er enn mikilvægara fyrir almenning að sjá vel þá sem vinna á vegum úti. Bílar í eigu Vegagerðarinnar eru allir merktir og langflestir eru með föst blikkljós á þakinu og verða allir bílar Vegagerðarinnar þannig útbúnir í framtíðinni. Þangað til eru notuð laus ljós.

Nýlega var svo samþykkt að einnig skyldi merkja einkabíla sem starfsmenn nota fyrir Vegagerðina í vinnu sinni. Þeir skulu búnir segulspjöldum með merki Vegagerðarinnar til að setja á framdyr, blikkljósi til að setja á topp bifreiðar og einnig í skulu í bílunum vera til staðar endurskinsvesti merkt Vegagerðinni.

Nota á blikkljósin þegar bíll ekur hægt eða þarf að stöðva vegna eftirlits, mælinga eða úttekta. Ef bíl er lagt í vegbrún skal nota blikkljósin eða bíl er ekið þar sem almenn umferð er ekki leyfð.

Hinsvegar má ekki nota ljósin þegar ekið er í almennri umferð án nokkurra afbrigða eða þar sem engin hætta eða truflun stafar af akstrinum. Og að sjálfsögðu ber að taka niður segulspjöldin og blikkljós séu menn ekki að sinna erindum Vegagerðarinnar eða þegar ekið er til og frá vinnu.

Almenningur á þannig að geta treyst því að sé Vegagerðarfólk að störfum á vegum úti er það vel merkt.


Merking bíla 2