Fréttir
  • Grímseyjarferjan

Vegna greinargerðar um Grímseyjarferju

Vegagerðin tekur ábendingar Ríkisendurskoðunar mjög alvarlega

14.8.2007

Vegargerðin tekur ábendingar Ríkisendurskoðunar sem fram koma í greinargerð hennar um kaup og endurnýjun á Grímseyjarferju mjög alvarlega og mun í framtíðinni hafa þær til hliðsjónar komi til þess að endurnýja þurfi aðra ferju.

Rétt er að ástand ferjunnar Oleain Ariann var slæmt en það var vitað þegar kaupin voru gerð. Ástandið var eigi að síður talsvert verra en búist var við þótt alltaf megi reikna með slíku þegar notuð ferja er keypt.

Skipið var skoðað mörgum sinnum og loks tekin ákvörðun um að ekki væri réttlætanlegt að eyða meiru fé til skoðana, þegar tillit var tekið til áætlaðs kostnaðar. Það hefur sýnt sig að þetta var röng ákvörðun sem draga verður lærdóm af.

Fyrstu áætlanir gerðu einnig ráð fyrir því að ferjan Oleain Ariann yrði endurbætt án mikilla breytinga á skipinu en þær áætlanir breyttust eins og kemur fram í greinargerð Ríkisendurskoðunar. Það hefur, eins og Ríkisendurskoðun bendir á, gert Vegagerðinni erfitt um vik.

Aukaverk hafa einnig orðið meiri en eðlilegt getur talist og mun Vegagerðin fara yfir verklagsreglur með það í huga að bæta úr, draga úr þörfinni fyrir aukaverk og tryggja svo sem unnt er að aukaverk riðli ekki fyrirframgerðum kostnaðaráætlunum.   

Vegagerðin fagnar því að gera eigi stjórnsýsluúttekt á Vegagerðinni en bendir jafnframt á að nýlega var gerð slík úttekt. Þá reiknar Vegagerðin með að verkefnahópur sá sem samgönguráðherra hefur beðið Vegagerðina að mynda, nái að vinna fljótt og örugglega, þannig að Grímseyjarferjan komist sem fyrst í gagnið enda verður nýja ferjan mikil samgöngubót fyrir Grímseyinga.

Greinargerð Ríkisendurskoðunar