Fréttir
  • Thverun Mjoafjardar

Arðsemi -- forgangsröðun

tvær skýrslur

3.8.2007

Í mars 2006 var gengið frá samningi milli Samgönguráðs og Hagfræðistofnunar um að stofnunin tæki að sér að gera úttekt á reynslu Dana og Norðmanna af arðsemismati, aðferðarfræði, hugbúnaði og gera samantekt á helstu þáttum sem kvarða stuðla í kostnaðar-og ábatagreiningu.

Skýrsluna unnu Axel Hall og Sólveig Jóhannsdóttir, sérfræðingar á Hagfræðistofnun og kom hún út nú í apríl 2007. Þessi skýrsla er seinni áfangi í verkefni Hagfræðistofnunar sem fjallar um forgangsröðun fjárfestinga í innviðum.

Fyrri skýrsla stofnunarinnar í þessu verkefni fjallaði um hvernig áhrifagreining (félagshagfræðileg greining) er til þess fallin að styðja ákvörðunarferla innan stjórnsýslunnar og við ákvarðanir á sviði stjórnmálanna.

Niðurstöður greiningarinnar gefa til kynna hvernig fjármagni sé best varið út frá hagrænum mælikvörðum. Í forgangsröðun þar sem stjórnmálamenn þurfa að velja á milli ólíkra kosta þarf að taka tillit til mjög margra þátta sem hafa pólitískt eða efnahagslegt vægi og er greiningin eitt af þeim hjálpartækjum sem stjórnmálamenn geta stuðst við.

Í fyrri skýrslu Hagfræðistofnunar kom ennfremur fram að nokkuð algengt er að opinberar stofnanir í ýmsum löndum noti kostnaðar-ábatagreiningu að einhverju leyti við forgangsröðun bæði á milli mismunandi málaflokka og innan tiltekins málaflokks. Algengast er þó að aðferðin sé notuð við mat á samgöngubótum eða nýjum samgöngum. Kostnaðar-ábatagreining á samgönguverkefnum er mjög algeng í Evrópu.

Í löndum eins og Bretlandi, Spáni, Þýskalandi, Austurríki, Hollandi, Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi er greiningin notuð að einhverju leyti við mat á samgöngum og aðferðinni verið beitt nokkuð lengi. Ýmsar aðferðir hafa verið þróaðar til að meta áhrif samgöngubóta en kostnaðar-ábatagreining er sú aðferð sem oftast er notuð, ýmist eingöngu eða innan umfangsmeiri greiningar. Í Danmörku og Noregi eru sérfræðingar komnir nokkuð langt á veg hvað varðar kerfisbundið mat á samgöngum og notkun félagshagfræðilegrar greiningar og er í skýrslunni gerð ítarleg grein fyrir þeim aðferðum sem þar er beitt.

Forgangsröðun fjárfestinga í innviðum II, Hagfræðistofnun Háskóla Íslands

Fyrri skýrsla: Forgangsröðun í samgöngum, HHÍ, okt. 2005