Fréttir
  • Vesturós Héraðsvatna 2006

Umhverfisskýrsla Vegagerðarinnar fyrir 2006 komin út

Markmið umhverfisstefnu Vegagerðarinnar er góð sambúð vegar og umferðar við umhverfi og íbúa

12.7.2007

Ávarp vegamálastjóra Jóns Rögnvaldssonar í umhverfisskýrslunni fyrir árið 2006

"Á þessu ári eru liðin tíu ár síðan fyrst var samþykkt formleg stefna í umhverfismálum hjá Vegagerðinni. Fimm árum áður hafði verið skipaður sérstakur vinnuhópur um umhverfismál og má raunar fullyrða að löngu fyrr hafi vegagerðarmenn verið meðvitaðir um að umgangast bæri umhverfið með virðingu.

Í fyrstu umhverfisstefnu Vegagerðarinnar voru ákvæði um það að koma ætti á og viðhalda umhverfisstjórnunarkerfi sem byggði á virkri þátttöku starfsmanna um alla stofnunina. Var í framhaldinu komið á laggirnar umhverfisnefndum í öllum umdæmum Vegagerðarinnar sem m.a. var ætlað að fylgjast með framgangi umhverfismála í umdæminu. Nefndirnar áttu einnig að hafa frumkvæði um tillögur varðandi aðgerðir á sviði umhverfismála.

Umhverfisnefndirnar hafa síðan verði starfræktar og hefur raunar öryggismálum verið bætt við starfssvið þeirra. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka öllum þeim sem nú starfa og starfað hafa í nefndunum undanfarinn áratug.

Eins og sést við lestur núgildandi umhverfisstefnu Vegagerðarinnar, sem birt er í skýrslu þessari, er að mörgu að hyggja varðandi umhverfismál hjá stofnun eins og Vegagerðinni. Sjaldnast er unnt að ná árangri með fljótvirkum hætti og má vel líkja starfi að þessum málum við langhlaup þar sem mikilvægt er að tapa ekki sýn á markið og trú á að unnt sé að ná því og bæta fyrri árangur. Til þess að það takist er áríðandi „að efla umhverfisvitund og áhuga starfsmanna á mikilvægi umhverfismála" svo vitnað sé í eitt atriði umhverfisstefnunnar. Jafnframt er áríðandi að gæta þess að vinnuumhverfi starfsfólks sé sem best og öruggast en um það er nokkuð fjallað í skýrslu þessari.

Við sem hjá Vegagerðinni störfum munum áfram þreyta þetta hlaup og kappkosta að starfsemi okkar sé í sem bestri sátt við umhverfið."

Umhverfisskýrsla Vegagerðarinnar 2006

Eldri skýrslur