Fréttir
  • Af slysavettvangi

Helmingur banaslysa í fyrra vegna hraðaksturs eða aksturs undir áhrifum

Skýrsla Rannsóknarnefndar umferðarslysa 2006

3.7.2007

Í fyrra létust 31 í 28 slysum sem er í andstöðu við þróunina árin á undan. Á árunum 2002 til 2005 fækkaði banaslysum úr 29 í 19.

Í skýrslu nefndarinnar segir: “Orsakir banaslysa í umferðinni eru oftast vísvitandi brotahegðun en stundum einhvers konar mannleg mistök. Þannig sýna rannsóknir nefndarinnar að tæplega 70% banaslysa í umferðinni megi rekja til 10 þátta.”

Þessir tíu þættir eru hraðakstur, ölvunarakstur, bílbelti ekki notuð, sofnað undir stýri, biðskylda ekki virt, lyfjanotkun, ökutæki rennur til/lausamöl, veikindi, ölvaður gangandi vegfarandi og grunur um sjálfsvíg.

Í fyrra var sem fyrr hraðakstur í efsta sætinu yfir orsakavalda banaslysa næst kom ölvunarakstur og fíknefninotkun. Til hraðaksturs telst allur akstur yfir löglegum hraða en einnig þegar ekið er hraðar en aðstæður leyfa. Segir í skýrslunni að þá reyni á dómgreind ökumanna en að niðurstöðurnar sýni að henni sé oft all verulega ábótavant. Ölvaðir ökumenn ollu níu banaslysum árið 2006 og í tveimur slysum fórum verulega ölvaðir einstaklingar í veg fyrir umferð. Eitt slys er rakið til þess að ökumaður var undir áhrifum ólöglegra fíkniefna.

 

“Ljóst er af gögnum nefndarinnar að áfengi, fíkniefni og lyf eru miklir hættuvaldar í umferðinni. Þeir brengla skynjun vegfarenda, sljóvga dómgreind, auka líkur á áhættuhegðun og kæruleysi ökumanna sem allt leiðir til alvarlegra slysa,” segir í skýrslunni.

 

Alls má rekja helming allra banaslysa í fyrra til ofsaaksturs og ölvunar eða 14 slys af 28. Ofsaakstur er þegar ekið er á 1,5 – 2 sinnum leyfðum hámarkshraða.

 

Rannsóknarnefnd umferðarslysa telur líklegt að sex ökumenn hafi látið lífið í fyrra vegna þess að þeir voru ekki í bílbeltum. Á árunum 2000 til 2006 er talið að 40 ökumenn og farþegar hefðu getað lifað af slys hefðu þeir verið í bílbeltum. Í mörgum tilvikum hefur fólk kastast út úr ökutækjunum eftir veltur og farist vegna höfuðáverka sem hljótast af harðri lendingu eða þá að bíllinn hafi oltið yfir fólk.

 

Lesa má skýrsluna í heild sinni á vef Rannsóknarnefndar umferðarslysa en einnig er hægt að lesa skýrslur hennar um einstök slys jafn óðum og þær eru gefnar út.