Fréttir
  • Skrifað undir

EuroRAP gæða og öryggiskönnun íslenskra vega

-- hringvegurinn kláraður í sumar og meira til

2.7.2007

Í dag, 2. júlí, skrifuðu fulltrúar Umferðarstofu og FÍB undir samning um áframhaldandi gæða- og öryggiskönnun íslenskra vega undir merkjum EuroRAP. Umferðarstofa styrkir verkefnið fyir hönd samgönguráðuneytisins en FÍB sér um framkvæmdina.

Á undanförnum árum hefur verið unnið að staðlaðri gæða- og öryggiskönnun á íslenskum vegum í tengslum við EuroRAP. Það verkefni byggir á samvinnu neytenda, vegagerða og hönnuða um flokkun vega og stjörnugjöf er gefin út frá öryggi. Frá einni stjörnu upp í fimm. Stefnan er tekin á fimm stjörnu ökumenn, á fimm stjörnu bílum á fimm stjörnu vegum. En það er töluvert langt í land.

Fyrst er að mæla vegina á Íslandi, en í fyrra voru ríflega 550 kílómetrar mældir og í ár er ætlunin að ljúka við að mæla hringveginn og helstu leiðir aðrar til þéttbýlisstaða auk vinsælla ferðamannaleiða sunnanlands. Búið er að mæla leiðin að Gullfoss og Geysi.

FÍB fékk líka í dag afhentan bíl til þessa verkefnis af gerðinni Mercedes Benz B-200 og er rekstur hans styrktur af nokkrum fyrirtækjum. Bíllinn er fimm stjörnu bíll samkvæmt prófunum EuroNCAP. Undanfarin tvö ár hefur verið notast við A-150 Mercedes Benz bíl.

EuroRAP öryggisflokkunin er mikilvægt tæki fyrir vegahönnuði meðal annars til að mæla áhættu og bera saman öryggi mismunandi vega, flokkunin upplýsir einnig vegfarendur um öryggi vega og einstaka vegarkafla. Óháð gæðaeftirlit er lykilþáttur í þessu starfi en það er eigi að síður unnið í náinni samvinnu við yfirvöld og veghaldara í hverju ríki og þá Vegagerðina í tilfelli Íslands.

 

EuroRAP eru samtök 25 bifreiðaeigendafélaga í jafnmörgum löndum í Evrópu og voru stofnuð árið 2000. Auk þess eru 14 opinberar stofnanir nokkurra Evrópuríkja stuðningsaðilar að EuroRAP, þar á meðal sænska vegagerðin. En sem fyrr segir styrkir Umferðarstofa verkefnið fyrir hönd samgönguráðuneytisins og einnig hefur Vegagerðin styrkt það.

 

Fulltrúar Umferðarstofu og Félags íslenskar bifreiðaeigenda undirrituðu samning um áframhaldandi gæðakönnun í dag að viðstöddum samgönguráðherra., Kristjáni L. Möller. Hann afhenti síðan FÍB lykilinn að bílnum.


Lyklar afhentir