Fréttir
  • Gengið gegn umferðarslysum

Þúsundir gengu gegn umferðarslysum

27.6.2007

Talið er að fjögur til fimm þúsund manns hafi tekið þátt í göngunni gegn umferðarslysum í Reykjavík í dag og nokkur hundruð á Selfossi og á Akureyri. Frumkvæði að göngunni eiga nokkrir hjúkrunarfræðingar á Landspítala - háskólasjúkrahúsi.

Í Reykjavík safnaðist mannfjöldinn saman við Landspítala við Hringbraut og gekk sem leið lá um Öskjuhlíð að þyrlupallinum við Landspítala í Fossvogi. Telja forráðamenn göngunnar að milli fjögur og fimm þúsund manns hafi tekið þátt, börn og fullorðnir á öllum aldri. Sleppt var rauðum blöðrum til að sýna stuðning þeim sem lent hafa í alvarlegum umferðarslysum og svörtum blöðrum til að minnast þeirra sem látist hafa í umferðarslysum.

Markmiðið með göngunni er að minna á alvarleg umferðarslys og afleiðingar þeirra og hversu ábyrgð ökumanna er mikil þegar meðhöndlun ökutækis er annars vegar. Eru ökumenn hvattir til að hafa í huga ábyrgð sína nú þegar miklar umferðarvikur eru framundan.


Orðrétt frétt tekin af vef samgönguráðuneytisins